Eldur í fiskeldi kom upp í rafmótor

Húsið var illa farið eftir eldinn.
Húsið var illa farið eftir eldinn. mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson

Lögregla hefur lokið vinnu á vettvangi bruna í fiskeldisstöð Samherja í Ölfusi frá því í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Eldurinn kom upp í rafmótor við fóðurgjafabúnað og var hluti búnaðarins haldlagður til frekari rannsóknar hjá sérfræðingi Mannvirkjastofnunar.

Rannsókn lögreglu hefur gengið hratt fyrir sig. Tilkynnt var um eldinn um klukkan hálfeitt í nótt og hófst rannsókn lögreglu í morgun, að slökkvistarfi loknu. Um þrjá­tíu slökkviliðsmenn frá Bruna­vörn­um Árnes­sýslu börðust við eldinn og lauk slökkvistörfum á fjórða tímanum í nótt. Eldurinn var allan tímann bundinn við eina byggingu og hrundi þak hennar að hluta þar sem eldurinn var sem mestur. Húsið stendur þó enn en ljóst að tjónið er mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert