Aron Þórður Albertsson Guðrún Erlingsdóttir
„Mér finnst tímasetningin sérstök enda komu engin slík sjónarmið fram á þeim tíma sem unnið var að rammaáætlun,“ segir Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, um tillögu Náttúrustofnunar Íslands um friðlýsingu á svæðinu þar sem Hvalárvirkjun á að rísa, en tillagan var birt í fyrradag.
Þar leggur stofnunin til að um 1.281 ferkílómetra svæði, sem nær frá suðurmörkum friðlandsins á Hornströndum og suður um Ófeigsfjarðarheiði, verði friðlýst. Þá hefur Landvernd hvatt Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, til þess að leggja nýja náttúruminjaskrá fyrir Alþingi um leið og þinghald hefst í haust. Verði Guðmundur Ingi við tillögunni er ljóst að framkvæmdir vegna virkjunarinnar eru í uppnámi.
Trausti Baldursson, forstöðumaður vistfræði- og ráðgjafardeildar Náttúrufræðistofnunar, sem leiddi vinnu við tillögugerðina, sagði í samtali við mbl.is í gær það hlutverk stofnunarinnar að rannsaka og kortleggja náttúrufar og gera tillögur um vernd út frá því, óháð hagsmunum annnarra. „Því hlutverki erum við að sinna með þessum tillögum,“ sagði Trausti.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Bergþór að tillagan komi töluvert á óvart og hún kalli á sérstaka skoðun í umhverfis- og samgöngunefnd sem fyrst. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða mjög vel á næstunni,“ segir Bergþór og bætir við að næsti fundur í nefndinni hafi ekki verið tímasettur en hann ráðgeri að það verði fyrr en síðar.