Um þrjátíu slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu börðust við eld í nótt í húsi fiskeldisfyrirtækis við Núpa í Ölfusi. Nágranni tilkynnti um reyk og eld um klukkan hálf eitt. Í húsinu sem eldurinn kom upp í er klakstöð og seiðaeldi. Slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist út í nærliggjandi hús og var búið að slökkva hann á fjórða tímanum í nótt.
Vísir greindi fyrst frá málinu í ítarlegri frétt í nótt. Þar kemur fram að um húsnæði Íslandsbleikju/Silfurlax sé að ræða.
„Það var ekkert fólk á staðnum þegar eldurinn kom upp, allir starfsmenn voru farnir heim, en það er full starfsemi, meðal annars seiðaeldi, í gangi í þessari stóru skemmu sem kviknaði í,“ segir Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og bætir við: „Fiskarnir voru lifandi þegar við kíktum á þá síðast.“
Haukur segir að þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang hafi mátt sjá töluverðan reyk og eld koma upp í gegnum þakið. „Þetta var alveg snúið verkefni, við þurftum að komast í vatn, eins undarlega og þá hljómar á þessum stað. Við vorum með kerrur með slöngum og dælum, sem við notum fyrir gróðurelda, og náðum að komast í vatn, svona um 100 metra frá.“
Eitt af því sem þurfti að gæta að var að súrefni er dælt í vatnið þar sem seiðin eru og þurftu starfsmenn fyrirtækisins, sem komu fljótlega á vettvang, að skrúfa fyrir það. „Súrefni er ekki eitthvað sem við viljum hafa mikið af þegar við erum að slökkva eld, það nærinn eldinn,“ segir Haukur.
Hann segir að svo vel hafi viljað til að milt veður hafi verið í nótt sem gerði slökkvistarfið auðveldara.
Eldurinn var allan tímann bundinn við eina byggingu. Þak hennar hrundi að hluta í nótt þar sem mesti eldurinn var en húsið stendur enn að sögn Hauks. Hann segist gera ráð fyrir að um stórtjón sé að ræða.
Lögreglan á Selfossi mun fara með rannsókn á eldsupptökum.