Umfang tjóns óljóst að svo stöddu

Byrjað er að rífa það sem skemmt er í húsinu.
Byrjað er að rífa það sem skemmt er í húsinu. mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson

„Húsið er illa farið og þarna er mjög mikið af búnaði,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandsbleikju, en húsnæði þeirra við Núpa í Ölfusi fór illa í bruna í nótt. Að svo stöddu er óljóst nákvæmlega hve mikið tjónið er.

Jón segir mikilvægast af öllu að húsið hafi verið mannlaust þegar eldurinn kom upp. Þá virðist sem tekist hafi að bjarga stærstum hluta fisksins sem var í húsinu.

„Við byrjum á að rífa burt það sem er skemmt og hættulegt til þess að gera vettvanginn öruggan fyrir fólk. Svo förum við að vinna í að byggja upp,“ segir Jón og gerir ráð fyrir að sú vinna hefjist í kvöld svo hægt sé að komast sem fyrst að þeim fiski sem þar er undir.

Tilkynning barst um eldinn um klukkan hálfeitt í nótt og unnu þrjátíu slökkviliðsmenn að því að slökkva hann. Tókst þeim að halda eldinum þannig í skefjum að hann breiddist ekki út í önnur mannvirki og var búð að slökkva eldinn á fjórða tímanum. Þak byggingarinnar hrundi að hluta til en að öðru leyti stendur húsið enn.

Slökkvilið afhenti lögreglu vettvanginn í morgun og gekk rannsóknin hratt fyrir sig. Eldurinn mun hafa komið upp við eða í rafmótor við fóðurgjafabúnað. Hald var lagt á hluta búnaðarins til nánari rannsóknar.

Uppfært kl. 20:10: Byrjað er að rífa það sem ónýtt er í húsinu eins og sjá má af ljósmyndum frá fréttaritara mbl.is á staðnum.

mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson
mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert