Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Heather Alda Ireland, fyrrverandi ræðismaður Íslands í Vancouver, verða heiðursgestir á Íslendingadagshátíðinni á Gimli í Kanada í ár. Katrín verður einnig heiðursgestur á hátíð í Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum um sömu helgi.
Viðburðurinn á Gimli er fjölmennasta hátíð Manitoba ár hvert, en undanfarin ár hafa um 50.000 manns heimsótt „höfuðstað“ Nýja-Íslands við Winnipegvatn um verslunarmannahelgina, þegar skemmtunin er.
Grant Stefanson, forseti Íslendingadagsnefndar, hélt aftur til Kanada síðastliðinn sunnudag eftir að hafa tekið þátt í opinberri dagskrá hátíðarhaldanna í Reykjavík 17. júní í boði stjórnvalda, kynnt hátíðina vestra fyrir ráðamönnum og spilað í golfmótinu Arctic Open á Akureyri. Hann segist meðal annars hafa átt ánægjulega fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðna Th. Jóhannessyni forseta.
„Á fundinum með forsætisráðherra ræddum við meðal annars sögu landnáms Íslendinga í Norður-Ameríku og sérstaklega merkilega sögu Nýja-Íslands,“ segir Grant og bætir við að þau hafi m.a. farið yfir stöðuna í kanadískum stjórnmálum.
Sjá samtal við Grant Stefanson í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.