Köttur í gámi frá Álasundi til Íslands

Pus er bröndóttur eins og þessi köttur. Myndir af Pus …
Pus er bröndóttur eins og þessi köttur. Myndir af Pus má finna á vef NRK. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hinn sjö ára gamli köttur Grete Hove í Álasundi í Noregi er heimakær og fer aldrei langt frá heimili sínu. En þann 9. júní hvarf hann skyndilega og eftir nokkra daga fór Hove að hafa áhyggjur.

Upphófst mikil leit og hengdar voru upp auglýsingar þar sem lýst var eftir kisu. En allt kom fyrir ekki. 

Um svipað leyti var íslensk fjölskylda að flytja úr húsi sínu í nágrenninu. Hún ætlaði að flytja aftur til Íslands og hafði fengið gám að húsi sínu þangað sem húsgögnin voru flutt. Gámurinn átti svo að fara um borð í skip til Íslands. Enginn hafði tekið eftir því að köttur hafði laumað sér inn í gáminn.

Í frétt um málið á vef norska ríkisútvarpsins segir að eigandi kattarins Pus hafi verið búinn að gefa upp alla von. 

En á Íslandi bar til tíðinda. Er gámur Aldísar Gunnarsdóttur og fjölskyldu var opnaður í gær voru kattarhár úti um allt.

Aldís segist hafa áttað sig á að köttur hefði komist inn í gáminn en hann lét hins vegar ekki finna sig í fyrstu. „Ég óttaðist að hann væri dauður,“ segir Aldís í samtali við NRK.

Þau tóku næstum öll húsgögnin út úr gámnum áður en þau komu auga á Pus. Hann stóð í einu horni gámsins, mjög hræddur Hann var horaður og hafði misst mikið af bröndóttum feldi sínum.

Aldís þekkti ekki köttinn en reiknaði með að hann væri í eigu einhvers fyrrverandi nágranna síns í Álasundi. Hún setti því mynd af honum á Facebook og fékk staðfestingu á grun sínum skömmu síðar.

Grete Hove segist auðvitað glöð að Pus hafi fundist og það á lífi en að ætlar þó ekki að reynast einfalt að koma honum aftur heim. Ekki verður hægt að flytja hann, að því er segir í frétt NRK, fyrr en hann hefur verið bólusettur á Íslandi og fengið þar til gerð ferðaskilríki. Slíkt er í höndum Matvælastofnunar.

Hove vonar þó að Pus komist aftur heim innan fárra daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert