Loka þarf fimm rúmum á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans nú um mánaðamótin þegar uppsagnir tólf ljósmæðra á spítalanum vegna kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins taka gildi. Þrengra verður því um fjölskyldur en undir venjulegum kringumstæðum og hugsanlega verður valkeisaraskurðum beint á Akranes og Akureyri.
Þá má búast við því að konur og nýburar verði útskrifuð beint í heimaþjónustu af fæðingarvakt, sé þess kostur. Mögulega má einnig búast við röskun á framköllun fæðinga. Fæðingarvakin mun þó taka á móti konum í fæðingu líkt og áður.
Ljóst er að mikil truflun verður á starfsemi fæðingarþjónustunnar eftir að uppsagnirnar taka gildi, að fram kemur í tilkynningu frá Landspítalanum. Aðgerðaráætlun vegna þessa verður virkjuð þann 1. júlí næstkomandi.
Frétt mbl.is: „Engin lausn í sjónmáli“
Barnshafandi konum er bent á að leita fyrst á sína heilsugæslustöð nema ef um bráð veikindi eða byrjandi fæðingu er að ræða. Læknavaktin mun taka við símtölum og veita ráðgjöf í síma 1770 eftir lokun heilsugæslustöðva. Þá er konum sem nýlega hafa fætt barn sömuleiðis bent á að leita fyrst á sína heilsugæslustöð, til heimaþjónustuljósmóður eða á Læknavakt, nema ef um bráð veikindi er að ræða.
Frétt mbl.is: 23 ljósmæður hafa sagt upp á LSH
Landspítali hefur undirbúið aukna samvinnu milli deilda spítalans og biðlað til annarra heilbrigðisstofnana um aðstoð. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, Læknavaktin og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa samþykkt að veita aukna þjónustu, í samráði við starfsfólk fæðingarþjónustu Landspítalans, að fram kemur í tilkynningunni.