Bragi Guðbrandsson var í dag kjörinn í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins til næstu fjögurra ára, en atkvæðagreiðslan fór fram á fundi aðildarríkja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í New York. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Þar segir að Bragi hafi fengið mjög góða kosningu, 155 atkvæði af 195, en átján frambjóðendur sóttust eftir níu sætum í nefndinni. Bragi, ásamt fulltrúa Samóa, fékk næstflest atkvæði allra en fulltrúi Marokkó hlaut 160 atkvæði.
„Réttindi barna eru eitt af þeim málefnum sem Ísland talar reglulega fyrir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í þessari niðurstöðu felst því mikil viðurkenning á frammistöðu Íslands á þessu sviði,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra á vef stjórnarráðsins.
„Bragi Guðbrandsson er sömuleiðis vel að þessu kominn enda hefur hann menntun, sérþekkingu og áratuga reynslu, bæði á Íslandi og í alþjóðastarfi, í þeim málaflokki sem barnaréttarnefndin fæst við,“ bætir Guðlaugur Þór við.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra fagnar sömuleiðis úrslitum atkvæðagreiðslunnar.
„Ég er ánægður með þessa niðurstöðu. Ísland hefur nú fengið rödd á þessum mikilvæga vettvangi þar sem talað er fyrir réttindum barna og bættri stöðu þeirra á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Áratuga reynsla og þekking Braga Guðbrandssonar á málefnum barna og þátttaka hans í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði mun án efa nýtast vel í störfum barnaréttarnefndarinnar,“ segir Ásmundur Einar.
Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (e. Committee on the Rights of the Child) hefur aðsetur í Genf í Sviss. Verkefni hennar er að fylgjast með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og bókana við hann. Nefndin er skipuð átján sjálfstæðum, óháðum sérfræðingum, sem kosnir eru til fjögurra ára í senn. Aðildarríkin kjósa níu sérfræðinga í júní annað hvert ár.
Fyrr á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um framboð Braga í nefndina og var utanríkisráðuneytinu falið að undirbúa framboðið. Á vef stjórnarráðsins segir að fastanefnd Íslands í New York hafi borið hitann og þungann af þeirri vinnu.