Dómstólnum svarað í sumar

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að íslensk stjórnvöld muni svara fyrirspurnum Mannréttindadómstóls með greinargerð í sumar, en dómstólinn hefur krafið íslensk stjórnvöld skýr­inga vegna Lands­rétt­ar­máls­ins. Ráðherra vonar að málið verði afgreitt af hálfu dómstólsins í haust.

Þetta kemur fram í færslu sem ráðherra hefur birt á Facebook. 

Sigríður tekur fram, að það sé ekki enn að fullu ljóst hvort Mannréttindadómstóllinn ætli að taka málið til meðferðar. Reglur dómstólsins séu þannig að mörgum málum sé vísað strax frá dómi en hins vegar sé einnig mögulegt að áður en slík ákvörðun sé tekin sé gagnaðila málsins gefinn kostur á að tjá sig um sakarefnið. Hluti af slíkri greinargerð geti verið krafa um að málinu verði vísað frá án frekari málflutnings. Slík ákvörðun geti verið í höndum forseta deildarinnar án aðkomu annarra dómara.

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Ljósmynd/ECHR

„Ekkert óeðlilegt á ferðinni“

„Hins vegar er ástæða til að fagna því að dómstóllinn taki sem fyrst afstöðu til kæru sem lýtur að því að skipan landsréttardómara sé andstæð Mannréttindasáttmála Evrópu þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi komist að gagnstæðri niðurstöðu. Þegar skoðaðar eru spurningar sem MDE hefur nú beint til íslenskra stjórnvalda er ljóst að þar er ekkert óeðlilegt á ferðinni enda eru þær í samræmi við málatilbúnað kæranda. Þannig vekur dómstóllinn til dæmis athygli á málinu Joric gegn Þýskalandi sem felur það í sér að MDE endurskoðar yfirleitt ekki dómsniðurstöður dómstóla aðildarríkjanna þegar þeir hafa komist að því að skipan dómara hafi verið í samræmi við lög. Hitt málið sem vísað er til í fyrirspurninni, og sem kærandi vísar til, er hins vegar rússneskt mál þar sem enginn ágreiningur var um það að dómarar hefðu ekki verið skipaðir í samræmi við lög. Það er mál sem aðilinn hafði sjálfur vísað til í málflutningi og tengist að öðru leyti lítið mati dómstólsins sjálfs,“ skrifar ráðherra.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Hún bætir við, að það sé auðvitað merkilegt við þetta mál að bæði Alþingi og Hæstirétur hafi staðfest skipanirnar og það sé í sjálfu sér einsdæmi að allar þrjár greinar ríkisvaldsins hafi þannig fjallað um skipan dómara við Landsrétt.

„Íslensk stjórnvöld munu því svara fyrirspurnum dómstólsins með greinargerð í sumar og vonandi verður mál þetta afgreitt af hálfu MDE í haust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert