Eftirlit dómstóla hafi brugðist

Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður, takast í …
Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður, takast í hendur áður en úrskurður var kveðinn upp. mbl.is/Valli

Frávísun á máli Jóns Þórs Ólafssonar, alþingismanns og VR, vegna ákvörðunar kjararáðs um launakjör þingmanna og ráðherra árið 2016, mun hafa áhrif á komandi kjaraviðræður að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR og tekur Jón Þór í sama streng.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Jóns Þórs og VR, telur að dómstóla hafa brugðist eftirlitshlutverki sínu samkvæmt stjórnarskrá.

„Frávísunarúrskurðurinn er á því byggður að stefnendurnir, Jón Þór og VR, hafi lagt lögspurningu fyrir dómstólinn og hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá kröfum sínum framfylgt með efnisdómi. Þrátt fyrir ákvæði 60. gr. stjórnarskrárinnar um að dómstólar hafi eftirlit með stjórnvöldum, hafa dómstólar brugðist því hlutverki með því að nota þessa réttarfarsreglu, formreglu, til að komast undan því að kveða upp efnisdóma í málum. Það er það sem gerðist í þessu máli,“ segir hann.

Niðurstaðan kom ekki á óvart

„Nú ætlum við að lesa dóminn nánar og hittumst síðan á mánudag til að fara yfir næstu skref,“ segir Jón Þór. Aðspurður segir hann að niðurstaða héraðsdóms hafi ekki komið á óvart sem slík.

„En nú höfum við fengið það staðfest að framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið og nú dómsvaldið, ætla að láta launahækkanir ráðamanna langt umfram almenna launaþróun, standa óbreyttar, það vitum við. Það færi best á því að ráðamenn stuðluðu að stöðugleika með því að sýna sanngirni og gott fordæmi í kjaramálum. Ef þessar launahækkanir standa, þá verða þær fordæmi í komandi kjaraviðræðum. Það er staðan sem við erum í,“ segir hann.

Ragnar Þór tekur undir með Jóni Þór. 

„Nú er búið að gefa tóninn og við munum að sjálfsögðu hafa þessa ákvörðun kjararáðs, sem samkvæmt dómstólum stendur, til hliðsjónar við okkar kröfugerð þegar við förum inn í næstu kjarasamninga. Það er deginum ljósara,“ segir hann og nefnir að úrskurðurinn veki upp enn fleiri spurningar en ákvörðun kjararáðs.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Valli

„Maður er hugsi yfir því, þegar lög eru brotin eins og með ákvörðun kjararáðs. Við vildum láta reyna á það fyrir dómstólum hvort við gætum haft einhver áhrif á þennan gjörning. Ef við getum ekki verið aðilar að slíkri málsókn sem forsvarsmenn stærsta stéttarfélags landsins, sem telur ríflega tíu prósent þjóðarinnar í fjölda og sömu leiðis aðili sem heyrir undir kjararáð, þá skilur þetta eftir enn stærri spurningar,“ segir hann.

Mun áfram beita sér í þinginu

Aðspurður kveðst Jón Þór áfram munu beita sér í þinginu vegna ákvörðunar kjararáðs. Tæplega tvö ár eru nú frá því ákvörðunin var tekin. Hann segir að hækkanirnar séu áfram umfram launavísitölu, í það minnsta fram á næsta ár.

„Ég mun áfram gefa þinginu tækifæri til þess að bregðast við. Aðalatriðið er að nú erum við komin á þann stað að eftirlit dómstóla með ákvörðunum stjórnvalda er ekki að virka, í þessu tilfelli varðandi ákvörðun kjararáðs sem klárlega er á svig við lögin. Þessar ákvarðanir settu kjarasamninga þorra launafólks í hættu. Sem þingmaður mun ég halda áfram að beita á virkan hátt eftirlitshlutverki þingsins gagnvart stjórnvöldum,“ segir hann.

Málinu var vísað frá á grundvelli þess að stefnendur hefðu ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir dómstólum, sem áður sagði. Jón Þór kveðst aðspurður munu beita sér fyrir því að aðild að dómsmálum á Íslandi verði rýmkuð. Hann vísar til þess að í Bretlandi hafi verið talið, vegna ákvörðunar um úrsögn Bretlands að ESB, að óánægðir almennir borgarar gætu haft lögvarða hagmuni af niðurstöðu í dómsmálum.

„Þetta er ekki hægt á Íslandi af því íslenskir dómstólar hafa skilgreint hugtakið aðili máls þannig að þú þarft að hafa mjög þrönga og sértæka hagsmuni. Ef íslenskt stjórnvald brýtur bara á nógu mörgum, þá segja dómstólar að þeir muni ekki snerta á slíku máli. Þetta þarf að laga,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert