„Útfærslan á þessum gatnamótum er algjörlega óútfærð, auk þess sem margir bundu vonir við þetta kosningaloforð Samfylkingarinnar um Miklubraut í stokk sem núna er að gufa upp. Miklabrautin er eitt stærsta samgöngumálið í borginni ásamt Kringlumýrarbraut,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
Tilefni ummæla Eyþórs er nýtt rammaskipulag Kringlusvæðisins sem samþykkt var á fundi borgarráðs í fyrradag. Þrír flokkar minnihlutans, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins, í borgarstjórn Reykjavíkur, sögðu, í bókun vegna samþykktarinnar, að óvissa ríki um stefnu meirihlutans í samgöngumálum sem setur skipulag Kringlureits í uppnám.
„Þetta var nú eitt stærsta kosningaloforð Samfylkingarinnar, Miklabraut í stokk. Það er ekki minnst á slíkar samgöngubætur í meirihlutasáttmálanum sem var gerður af þessum flokkum. Vinstri grænir voru nú reyndar búnir að segja að þetta væri ekki forgangsmál að fá Miklubraut í stokk. Þar af leiðandi er engin lausn á borðinu varðandi Miklubrautina,“ segir Eyþór.
Samkvæmt Eyþóri gefst tækifæri til verulegra umbóta á svæðinu vegna mikilla breytinga, tækifæri sem kemur á fimmtíu ára fresti að sögn hans. „Þegar svona miklar breytingar eru skipulagðar er svo mikilvægt að þetta tækifæri sé nýtt. Ef menn nota tækifærið og bæta samgöngurnar sem eru mjög þungar á þessum gatnamótum, ekki bara austur- og vesturhluta Reykjavíkur, heldur líka nágrannasveitarfélögin.“
„Við höfum talið þetta ákjósanlegan stað fyrir samgöngumiðstöð, sem er betri en BSÍ, þetta er meira miðsvæðis. Það væri hægt að byggja þarna frekar en á reit BSÍ þar sem ekkert hefur gerst í fjögur ár. Hættan er sú að skipulagið sé gert með þim hætti að það sé ekki hægt að fara í úrbætur eftir að þetta er búið, tíminn er núna,“ staðhæfir oddviti sjálfstæðismanna.
Hann segir sem dæmi hafi verið tækifæri til þess að setja Geirsgötu í stokk á síðasta kjörtímabili þegar breytingar voru skipulagðar í kringum Hörpu, en að það hafi ekki verið gert.
Í bókun flokkana þriggja er meðal annars sagt að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar séu þau hættulegustu á landinu.
Inntur álits á framtíðarhorfum gatnamótanna segir Eyþór: „Við myndum vilja að þessi gatnamót væru án ljósa og að umferðin færi að einhverju leyti neðanjarðar, þannig að umferðin væri bæði greiðari og hættuminni. Ef menn fara á stað með skipulag og hafa ekki hugað að samgöngumálum getur þýtt að menn sitji uppi með enn meiri umferðarvandamál heldur en verið hefur í borginni.“
Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, við vinnslu fréttarinnar.