Stefnir á heimsmet í haust

Jón Ingi býr sig undir myndatöku í farþegastökki í september …
Jón Ingi býr sig undir myndatöku í farþegastökki í september 2017 í 10.000 feta hæð yfir Bakkaflugvelli og vantar ekki búnaðinn, þrjár myndavélar á hjálminum og sú fjórða í hendi fyrir sjálfsmyndina. Ljósmynd/Jón Ingi Þorvaldsson

Gjarnan er það svo að sumt fólk virðist einfaldlega hafa aðgang að fleiri tímum en þessum 24 sem við flest þekkjum í einum sólarhring. Að minnsta kosti vakna grunsemdir um slíkt í tilviki þeirra sem geta stundað og kennt fallhlífarstökk, dansað salsadans á Kúbu og í Póllandi – og á Íslandi á miðvikudagskvöldum – auk þess að birtast annað slagið á Íslandsmeistaramótum í karate og fá þar gullpening um hálsinn eftir „smá æfingaskorpu“.

Jón Ingi Þorvaldsson tölvunarfræðingur, sem gerir allt þetta og keppti reyndar stundum í kappakstri á árum áður líka, spjallaði við mbl.is um það hvernig svo margháttuð athafnasemi gangi upp, undirbúninginn fyrir heimsmetstilraun í mynsturstökki í haust og draum mannskepnunnar um að fljúga.

Hugsaði sinn gang eftir hörmulegt slys

„Ég byrjaði að stunda fallhlífarstökk í apríl 2013,“ segir Jón Ingi frá. „Tók bóklegt námskeið heima og tók svo verklega hlutann í ferð sem farin var til Flórída þetta sama vor með stórum hópi. Nokkrum dögum áður en kom að því að taka fyrsta stökkið létust tveir félagar okkar, kennari og nemandi, í kennslustökki. Það var að sjálfsögðu gríðarlegt áfall fyrir allan hópinn og jafnvel þótt ég hafi ekki þekkt þá persónulega varð þetta til þess að ég tók mér smá aukatíma til að hugsa minn gang en komst að þeirri niðurstöðu að ef maður lætur slíka atburði stöðva sig þá gerir maður á endanum ekki neitt,“ segir Jón Ingi.

Stokkið úr loftbelg yfir Perris Valley í apríl 2017. „Að …
Stokkið úr loftbelg yfir Perris Valley í apríl 2017. „Að stökkva úr loftbelg er alveg sérstök upplifun. Maður fellur alveg stjórnlaust fyrstu sekúndurnar í algerri kyrrð. Í þessu tiltekna stökki hittist svo á að ég fór fram hjá öðrum loftbelg sem var aðeins neðar,“ segir Jón Ingi sem náði þessari sérstöku mynd við það tækifæri. Ljósmynd/Jón Ingi Þorvaldsson

Hann segir að síðan byrjunarnámskeiðinu í Flórída sleppti hafi hann varið nánast öllum sínum frítíma í ferðalög til að stunda fallhlífarstökk, mest til Perris Valley í Kaliforníu þar sem hann segist fljótlega hafa kynnst frábærum kennurum sem hann hafi lært hvað mest af í greininni auk þess sem hjá Skydive Perris sé ein besta aðstaða til fallhlífarstökks á byggðu bóli.

„Þess á milli hef ég ferðast á milli annarra stökksvæða til tilbreytingar, mest í Bandaríkjunum en einnig í Evrópu. Ég hef stokkið á um 20 mismunandi svæðum í sex löndum og hef í þessum töluðu orðum tekið um 830 stökk, mest úr venjulegum flugvélum en einnig þyrlum og loftbelgjum,“ útskýrir Jón Ingi.

Fátt er meira gefandi en að hanga með góðum félögum …
Fátt er meira gefandi en að hanga með góðum félögum úr fallhlífarstökkinu í þessu fína veðri. Hápunktur páskahátíðarinnar hjá Skydive Perris í ár var þegar tækifæri gafst til að hanga neðan í þessari tvíþekju. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hann lætur þó ekki þar við sitja að stökkva bara fyrir sjálfan sig heldur tók kennararéttindi í fallhlífarstökki í fyrra og vonast til að geta byrjað að kenna á Hellu í sumar „ef það hættir einhvern tímann að rigna á Íslandi,“ segir kennarinn nýbakaði sposkur, en hann er staddur á miðsumarhátíð í Stokkhólmi þegar þetta spjall á sér stað gegnum símtalsmöguleika Messenger-forritsins og blaðamaður hinum megin landamæranna, í Ósló.

Bítur til að smella af

„Heima á Íslandi er ég mest í því að taka upp farþegastökk,“ segir Jón Ingi og á þar við ljósmynda- og myndskeiðsupptökur af fólki sem kemur til að fara í stökk með kennara. Ekki vantar útbúnaðinn í þessum verkefnum og minnir tölvunarfræðingurinn einna helst á fljúgandi ljósmyndastofu, svo sem sjá má af myndinni hér að ofan þar sem hann er með venjulega ljósmyndavél og tvær vídeótökuvélar festar við hjálminn. „Þetta er ekkert mál, ég er með „trigger“ uppi í mér sem ég bít bara í til að taka mynd á ljósmyndavélina,“ útskýrir Jón Ingi og nær að láta framkvæmdina hljóma álíka hversdagslega og að smyrja brauðsneið.

Eins og forsögulegt skrímsli aftan úr grárri forneskju svífur Jón …
Eins og forsögulegt skrímsli aftan úr grárri forneskju svífur Jón Ingi af stað í stökk í vængjagalla (e. wing suit) yfir Perris Valley. „Aðalmunurinn á vængjagalla og venjulegu frjálsu falli er kannski aðallega að maður fær enn þá sterkari tilfinningu fyrir því að maður sé að fljúga vængjum þöndum,“ útskýrir Jón Ingi. Ljósmynd/Úr einkasafni

En hvað þá með kostnaðarhliðina? Fólk sem svífur um loftin blá íklætt viðamiklum samfestingi með þrjár myndavélar á höfðinu og fallhlíf á bakinu lítur ekki út fyrir að hafa fundið þetta í Cocoa Puffs-pakka, hvað þá þegar við bætist að þurfa í flestum tilfellum heila flugvél fyrir hvert stökk.

„Ja, þetta er ekki ódýrt sport,“ játar Jón Ingi. „Það er dýrt að byrja og koma sér upp búnaði en þegar maður er kominn í gang erum við að tala um kannski 3.000 krónur á stökk. Það er ekkert mál að fara upp í milljón í búnaði en ef fólk kaupir notað er hægt að koma sér öllu upp fyrir kannski hálfa milljón,“ segir hann.

Hvað skyldi þá heilla mest þegar búið er að punga út fyrir fallhlíf og öllum græjum, taka námskeið og loksins komið að því að henda sér út úr flugvél langt ofar foldu? „Fyrstu stökkin voru náttúrulega svakalegt adrenalín-„rush“ en svo fer þetta að snúast fyrst og fremst um að æfa ákveðna tækni og ákveðna samvinnu,“ segir Jón Ingi. „Þetta er bara ákveðin tilfinning sem erfitt er að lýsa, sérstaklega að stökkva í vængjagalla [e. wingsuit] sem ég hef einnig stundað dálítið, líklega stokkið um 40 stökk í svoleiðis galla. Það dreymir alla um að fljúga á einhvern hátt og þetta er líklega það næsta sem við komumst því, á viðráðanlegan hátt,“ segir Jón Ingi og hlær við.

Lokasekúndurnar í tilraun til að mynda 105 manna mynstur í …
Lokasekúndurnar í tilraun til að mynda 105 manna mynstur í æfingabúðum hjá Skydive Perris í maí 2018. Jón Ingi er næstneðst í hópnum til hægri við miðja mynd, í grænum, svörtum og rauðum galla. Ljósmynd/Terry Weatherford

Hyggjast setja heimsmet með rúmlega 130 manna mynsturstökki

Æfa tækni, jú jú, en hvaða samvinna skyldi þetta vera sem Jón Ingi talar um? „Þegar ég er að stökkva erlendis er ég aðallega að stunda það sem kallað er mynsturstökk [e. formation skydiving] sem er ein af mörgum keppnisgreinum í fallhlífarstökki,“ segir Jón Ingi og bætir því við að hann hafi ekki komist í það enn þá að keppa heldur einbeitt sér að því að komast í æ stærri mynsturstökk og hafi hann nú í vor farið í æfingabúðir þar sem reynt hafi verið við 105 manna stökk.

Hann ljóstrar því svo upp í framhaldi af þessum útskýringum að hann hafi sótt um að komast í hóp sem í október ætlar að gera tilraun til að setja heimsmet í fjölda í mynsturstökki þátttakenda yfir fertugu. Tilraunin er á vegum alþjóðlegra samtaka stökkvara sem kallast POP, eða „Parachutists Over Phorty“, og ætla samtökin sér að fella núverandi heimsmet sem er 130 manna mynsturstökk.

„Núna er verið að taka við umsóknum og ég er búinn að sækja um,“ segir Jón Ingi. „Þarna koma saman einstaklingar sem flestir hafa fjögurra stafa tölur í stökkfjölda þannig að það er engan veginn víst að ég fái að vera með,“ útskýrir hann og vísar í sín 830 stökk sem þó er líklega 830 skiptum fleira en fólk flest stekkur í fallhlíf frá vöggu til grafar.

Heimsmetstilraunin fer einmitt fram á hinu rómaða stökksvæði Skydive Perris í Kaliforníu en varla er það bara formsatriði að rúmlega 130 manns komi saman og fari í fallhlífarstökk hönd í hönd? „Nei nei, þetta eru fjórir dagar og gerðar verða 18 til 20 tilraunir til að slá metið,“ segir Jón Ingi. „Mynstrið er fyrst æft á jörðu niðri, þar sem við stillum okkur upp, en þá verður búið að ákveða fyrir fram nákvæmlega hverjir eru hvar í mynstrinu.“ Þarna þurfi þátttakendur að vera allnaskir á sína nánustu í stökkinu og leggja á minnið útlit samfestinga annarra, hjálma, fallhlífarbúnað og fleira til að finna þá sem þeir eiga að tengjast þegar frjálst fall er tekið við.

Mynsturstökk. Myndin sýnir framkvæmdina vel eins og Jón Ingi lýsir …
Mynsturstökk. Myndin sýnir framkvæmdina vel eins og Jón Ingi lýsir henni. Flugvélarnar fljúga oddaflug og 20 – 22 manna hópar stökkva úr hverri vél. Þeir sem fyrstir stökkva eru þegar byrjaðir að taka höndum saman og mynda stjörnu, eða mynstur, neðst á myndinni. Ljósmynd/Luciano Bacque

„Svo er öllum raðað upp í flugvélar og komast allt að 22 í hverja flugvél svo þetta verða sjö vélar sem fara með okkur upp, 130 til 140 manna hóp. Þær fljúga í spíss og öllum er raðað upp í vélunum miðað við þá staðsetningu sem þeir munu hafa í mynstrinu. Svo stekkur fyrsti maður, stjórnandinn, út úr fremstu vélinni og á eftir honum sturtast allir hinir, hver vél er tæmd á þremur til fimm sekúndum,“ lýsir Jón Ingi og gerir þar með fullljóst að menn kasta ekki höndum að því að setja heimsmet í fjöldastökki í fallhlíf. Hann segir dómnefndina svo leggjast yfir upptökur af stökkinu en öll framkvæmdin er tekin upp á fjölda myndavéla.

„Svona mynsturstökk telst ekki gilt nema allir þátttakendur komist í mynstrið og hver maður á réttan stað í því miðað við það sem upp var lagt með í byrjun,“ segir Jón Ingi að lokum og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort nýtt heimsmet líti dagsins ljós í háloftunum fyrir ofan Perris Valley í október.

Salsadans – er það eitthvað út á skyr?

Jón Ingi Þorvaldsson er Skagamaður í húð og hár, fæddur og uppalinn á Akranesi en fluttist ungur á mölina til að hefja nám í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 1991 þaðan sem hann flutti sig svo árið eftir yfir í tölvunarfræði og lauk þaðan BS-gráðu og síðar einnig MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann lagði stund á karate frá 19 ára aldri, fyrst hjá Karatefélagi Akraness og síðan lengst af hjá Karatefélaginu Þórshamri, og var landsliðsmaður í karate í 11 ár.

Annað forvitnilegt áhugamál Jóns Inga er þó salsadans sem hann stundar af innlifun á vegum félagsskaparins Salsa Iceland og lagði auk þess stund á salsakennslu þar þangað til í fyrra þegar hann ákvað að taka sér hlé frá kennslu. Hvernig skyldi sá áhugi hafa kviknað? „Hún Edda [Lúvísa Blöndal karatekona] vinkona mín dró mig í salsadans með sér fyrir um 15 árum og ég hef stundað hann síðan,“ segir Jón Ingi. Hann segir frá þremur ferðum sínum til Kúbu á árabilinu 2008 til 2012 í því augnamiði að sækja salsanámskeið hinna innfæddu. „Salsa Iceland er hins vegar nokkur hundruð manna hópur sem stendur fyrir salsakvöldum á miðvikudögum, annaðhvort á B5 eða í Iðnó. Svo erum við að fara á stóra salsahátíð í Póllandi núna í lok júlí,“ segir hann frá.

Jafnan myndast gríðarleg stemmning þegar dansarar Salsa Iceland koma saman …
Jafnan myndast gríðarleg stemmning þegar dansarar Salsa Iceland koma saman á Lækjartorgi á Menningarnótt. Hér má sjá tvo af forsprökkum danshópsins, þau Eddu Blöndal og Mike Sanchez, stýra hópdansi á Menningarnótt 2016. Ljósmynd/Salsa Iceland

Þegar blaðamann fýsir að vita hvers konar aðdráttarafl salsadansinn hafi á Jón Inga stendur ekki á svörum: „Það er eitthvað við svona dans sem gerir það að verkum að maður gleymir stað og stund. Þetta krefst þannig einbeitingar að ekkert annað kemst að í huganum og þetta verður eins konar hugleiðsla. Svo er þetta bara svo helvíti gaman,“ játar Jón Ingi og brosið heyrist nánast gegnum Messenger.

Íslandsmeistari í karate eftir stutta rispu

Ekki hefur fallið á áhuga Jóns Inga á karateíþróttinni í tæp 30 ár. Eins og fyrr segir var hann landsliðsmaður í 11 ár, en hann hefur einnig kennt karate í fjölda ára hjá Karatefélaginu Þórshamri, unnið til 15 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum og ber gráðuna 3. dan. Í fyrra tók hann sig til og keppti á Íslandsmeistaramótinu í kumite (bardaga) eftir býsna hraðsoðinn undirbúning en Jón Ingi æfir ekki karate reglulega nú orðið. „Ég æfi annað slagið og tek skorpur inn á milli. Síðasta haust tók ég smá skorpu og ákvað að taka þátt í Íslandsmótinu svona til gamans, eiginlega aðallega til að setja pressu á sjálfan mig að halda mér í formi,“ rifjar Jón Ingi upp. „Ég slysaðist svo til að sigra í mínum þyngdarflokki sem var sameinaður mínus og plús 84 kg flokkur og bætti þar með met Konráðs Stefánssonar um nokkur ár en hann var fram að því elsti Íslandsmeistari í kumite. Í opnum flokki þurfti ég hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir Íslandsmeistaranum, Mána Karli Guðmundssyni,“ segir Jón Ingi. „Annars er ég líka að æfa uppgjafarglímu í Mjölni og einnig hjá Jóni Viðari Arnþórssyni vini mínum sem var að opna nýja æfingastöð sem ber heitið Týr.“

Jón Ingi hampar sínum 15. Íslandsmeistaratitli í 84 kg flokki …
Jón Ingi hampar sínum 15. Íslandsmeistaratitli í 84 kg flokki í kumite í nóvember í fyrra. Með honum á myndinni er María Helga Guðmundsdóttir, einnig frá Karatefélaginu Þórshamri, en hún varð við sama tækifæri Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þetta síðasta kemur svo sem lítið á óvart miðað við aðra framkvæmdagleði hins tæplega fimmtuga tölvunarfræðings sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Steinn Steinarr orti að tíminn væri eins og vatnið og er þá freistandi að spyrja hvort tíminn, þessi óræða vídd okkar mannanna, sé hreinlega eins og vatn í höndum Jóns Inga. Getur sumt fólk unnið sómasamlega fyrir sér og stundað hátt í tug tímafrekra áhugamála á fimmtugsaldri án þess að blása úr nös?

„Ég hef dálítið þurft að ýta einu hobbýi til hliðar til að koma öðru að,“ játar viðmælandinn. „Ég hef eiginlega aldrei stundað allt þetta í einu. Ég byrjaði til dæmis ekki í fallhlífinni fyrr en ég var búinn að ýta kappakstursdellunni til hliðar.“ Hér keyrir um öll þverbök hjá blaðamanni. Kappakstursdellunni? „Já, ég stundaði akstursíþróttir í nokkur ár, aðallega körtukappakstur, eða „rotax karting“ eins og það heitir. Ég keppti í þessu hvort tveggja heima á Íslandi og í Bretlandi. Þar tók ég einnig þátt í haustmótaröð Formula Palmer Audi haustið 2007, á þeim tíma þegar enn þá var hægt að fá fyrirtæki til að borga fyrir límmiða á kappakstursbíla hjá meðaljónum eins og mér,“ segir Jón Ingi og bætir við að það hafi nú kannski verið meira til gamans gert, en engu að síður eitthvert magnaðasta ævintýri sem hann hafi stokkið út í fyrr eða síðar.

„Aðalmarkmiðið í þeirri keppni var nú bara að vera ekki alveg á botninum enda var ég að keppa við marga unga og upprennandi kappa sem síðar hafa gert garðinn frægan. Ég held ég hafi endað í 22. sæti af 27 eða 28 keppendum,“ segir Jón Ingi kersknislega.

Einhverjum kynni að þykja þessi mynd dálítið „2007“ enda er …
Einhverjum kynni að þykja þessi mynd dálítið „2007“ enda er hún einmitt tekin árið 2007 þegar Glitnir lifði enn góðu lífi. Undir stýri er enginn annar en þáverandi forstöðumaður hugbúnaðarlausna Glitnis en þarna tekur Jón Ingi þátt í haustmóti Formula Palmer Audi á Brands Hatch á Englandi í nóvember nefnt ár. Ljósmynd/James Bearne

Væntanlega leikur einhverjum forvitni á að vita hvað Jón Ingi hefur verið að brasa á vinnumarkaði samhliða þeim ótal orkufreku áhugamálum sem hér hafa verið gerð skil. „Ég hef aðallega verið í stjórnunarstörfum á sviði upplýsingatækni, nú síðast hjá Reykjavíkurborg, þar sem ég stýrði upplýsingatæknideild borgarinnar, en þar á undan var ég hjá CCP, Dohop, Byr, Íslandsbanka og á fleiri stöðum. Hins vegar hef ég tekið mér frí frá vinnu í fáeina mánuði á nokkurra ára fresti og er í einu slíku fríi núna,“ segir Jón Ingi Þorvaldsson gegnum Messenger frá Stokkhólmi og við komum okkur saman um að bíða þangað til næst með að ræða feril hans sem bassaleikara þungarokksveitarinnar XIII á tíunda áratug síðustu aldar. Upplýsingatæknin í þessu viðtali hefur einfaldlega fyllt sinn kvóta.

Nokkrir hlekkir:

Hér má sjá myndskeið af farþegastökkinu úr þyrlunni

Hér má sjá myndskeið af tvíþekjuatriðinu í Perris Valley 1. apríl

Myndskeið af 105 manna stjörnu – hér þarf að samþykkja skilmála vefjarins

Myndasafn frá Formula Palmer Audi-kappakstrinum

Fleiri myndskeið – fallhlífarstökk

Facebook-síða fallhlífarstökksfélagsins Frjáls falls

Facebook-síða Salsa Iceland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert