Uppsagnir tólf ljósmæðra á Landspítalanum taka gildi í dag, en þær sögðu allar upp störfum vegna kjaradeildu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Ljósmæðurnar tólf hafa kvatt vinnustaðinn með táknrænum hætti á samfélagsmiðlum með því að birta myndir af vinnuskónum sínum og starfsmannaskírteini. Allar kveðja þær með miklum trega. Enn fleiri ljósmæður hafa sagt upp á heilbrigðisstofnunum víða um land og búast má við því að uppsögnunum fjölgi enn frekar verði ekki samið fljótlega.
Atkvæðagreiðslu um yfirvinnuverkfall lýkur einnig í dag, en allt bendir til þess að félagsmenn samþykki það. Verkfallsboðun verður þá borin út á mánudag og gera má ráð fyrir að verkfall hefjist um miðjan mánuðinn.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að stórt skarð yrði höggvið í hópinn með þessum uppsögnum. „Ég er ekki að sjá hvernig þær sem eftir eru ætla að standa undir og leggja starf sitt og nafn að veði til þess að halda uppi þjónustunni og tryggja öryggi skjólstæðinga okkar við svona bágar aðstæður. Þetta er gríðarlega alvarlegt,“ sagði Katrín.
Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður á fimmtudaginn.