Niðurstaða MDE haggi ekki skipun dómara

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

„Dómstóllinn er ekki búinn að ákveða að taka málið til efnislegrar meðferðar, virðist mér af þeim upplýsingum sem ég hef séð. Hann skoðar fyrst hvort það séu uppfyllt svokölluð kæruskilyrði og þá metur hann m.a. hvort kæran sé efnislega augljóslega ekki tæk til meðferðar,“ segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, um Landsréttarmálið sem kært var til Mannréttindadómstóls Evrópu í lok maí og bíður nú úrlausnar. Hún segir þá ekki sjálfgefið að það muni ganga dómur í málinu.

Björg segir að málið sé á frumstigi hjá dómstólnum. „Nú er hann að spyrja frumspurninga um málið, svo það er ekki sjálfgefið að það muni ganga dómur í málinu. Það gæti farið svo að eftir að hafa fengið svör íslenska ríkisins telji hann að málið sé augljóslega illa grundað og þá vísar hann því frá með ákvörðun. Mörg íslensk kærumál mál hafa farið þannig og í raun fer dómstóllinn ofan í efni málsins kunni svo að vísa því frá,“ útskýrir Björg.

Dómstóllinn geti vísað málinu frá

Björg segir að hins vegar geti komið til þess að dómstóllinn taki málið til efnislegrar meðferðar, eftir að hafa fengið athugasemdir íslenska ríkisins, og þá gangi dómur í málinu. Úr þeim dómi geti þá komið tvær niðurstöður til greina, annars vegar að ríkið verði talið hafa brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð og hins vegar að ríkið verði ekki talið hafa gerst brotlegt.

Björg segir enn fremur ekki sjálfgefið að það muni falla dómur í málinu, þrátt fyrir að spurningum hafi verið beint að íslenska ríkinu og því gefinn frestur til þess að svara þeim spurningum með greinargerð. „Dómstóllinn vill alla vega sjá röksemdir ríkisins. Það getur verið svo að ríkið skili upplýsingum sem dómstóllinn telur nægilegar til þess að sýna fram á að málið sé ekki tækt til meðferðar og vísi því frá. En þegar dómstóllinn spyr spurninga þá sér hann samt eitthvað í málinu [...], hann er alla vega eitthvað að skoða málið nánar.“  

Réttmæta athygli vakti að dómstóllinn sendi spurningarnar til íslenska ríkisins aðeins um þremur vikum eftir að málið var kært til hans. Björg segir dómstólinn með því augljóslega gefa málinu sérstakan forgang, sem sé fáheyrt í íslenskum kærumálum fyrir dómstólnum. „Algengt er að það líði jafnvel tvö til þrjú ár þar til að dómstóllinn spyr ríkið spurninga eftir að hafa borist kæra. Væntanlega lítur dómstóllinn þarna til þess að þetta geti haft mikla þýðingu fyrir meint kerfislægt vandamál í íslenska réttarkerfinu,“ segir Björg.

Björg Thorarensen.
Björg Thorarensen. mbl.is/Golli

Niðurstaða MDE ómerki ekki úrlausnir Landsréttar

Björg segir að komi til þess að dómstóllinn telji íslenska ríkið hafa brotið gegn 6. gr. Mannréttindasáttmálans ómerki sú niðurstaða ekki sjálfkrafa dóma Landsréttar. „Það er ekki svo. Þá verður sakborningur í málinu og sá sem kærir það til dómstólsins [...] að fara fram á endurupptöku málsins. Um það starfar sérstök nefnd, endurupptökunefnd, og hún metur hvort það sé lagaheimild og ástæða til þess að taka málið upp,“ segir Björg.

Þá segir hún að niðurstaða Mannréttindadómstólsins haggi í engu skipun dómara við Landsrétt. „Þótt lög hafi verið brotin við málsmeðferð um skipun þeirra stendur hún óbreytt og dómurum verður samkvæmt stjórnarskrá ekki vikið úr sínu embætti nema samkvæmt dómi. Það breytist ekkert sama hver niðurstaða dómstólsins í Strasbourg verður.“

Hún bætir við að sama eigi við um önnur mál sem hafa komið til úrlausnar Landsréttar, þar sem umræddir dómarar hafa setið í málum, gildi þeirra dóma verði ekki haggað sjálfkrafa með áfellisdómi Mannréttindadómstólsins í þessu kærumáli. „Það verður hver og einn málsaðili að ákveða hvort að hann nýti sér lagaheimild til að óska endurupptöku á sínu máli. Dómarnir standa óhaggaðir og Mannréttindadómstóllinn breytir í engu formlegu gildi og niðurstöðum þeirra dóma sem hafa gengið á Íslandi, jafnvel þótt hann kveði á um að með dómsniðurstöðu hafi íslenska ríkið brotið gegn 6. gr. Mannréttindasáttmálans,“ segir Björg að lokum.

Ákvörðun MDE hnekki ekki niðurstöðu Hæstaréttar

Í grein sem Davíð Þór Björgvinsson, skipaður dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, birti á síðu sinni í dag tekur hann í sama streng og Björg. Hann segir þá að ekki sé um það deilt í málinu hvort ráðherra hafi brotið lög í aðdraganda skipunar Arnfríðar Einarsdóttur. „Hefur Hæstiréttur, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, slegið því föstu og getur ákvörðun Mannréttindadómstólsins, hver sem hún verður, ekki hnekkt því.“

Hann segir þó, líkt og Björg nefnir, að áfellisdómur geti orðið til þess að þeir sem telji sig hafa mátt þola órétt vegna setu dómaranna í málum þeirra fyrir Landsrétti myndu krefjast endurupptöku ef þeir teldu það í þágu sinna hagsmuna. „Það er ekki augljóst að þeir hafi áhuga á því með þeirri fyrirhöfn sem því fylgir ef þeir telja ekki líkur á að niðurstaða í máli þeirra breytist þeim í hag,“ bendir Davíð Þór á.

Davíð Þór Björgvinsson.
Davíð Þór Björgvinsson. mbl.is/RAX

Ekki augljóst að löggjafinn beiti sér fyrir endurupptöku

Davíð Þór segir enn fremur ekki augljóst að löggjafinn eigi að beita sér fyrir því að mál sem umræddir dómarar hafi dæmt í verði endurupptekin verði niðurstaðan áfall hjá Mannréttindadómstólnum, „enda getur sú staða vel komið upp að aðilar þessara mála kæri sig ekkert um það þar sem þeir geri sér enga von um aðra niðurstöðu hvort sem er,“ segir í greininni.

Segist Davíð Þór þó fagna því að lyktir málsins séu í sjónmáli og telur hann afstöðu dómstólsins skynsamlega. „Dómstóllinn hefur hér vissulega hraðar hendur. Af því einu verða þó ekki dregnar neinar skýrar ályktanir um hver niðurstaðan er líkleg til að verða. Fremur ber að túlka þetta svo að MDE telur brýnt að eyða allri óvissu um hvort umræddir dómarar geti setið í málum i Landsrétti án þess að það teljist brot á 6. gr. MSE. Þetta er skynsamleg afstaða og því ber að fagna að lyktir þess máls séu nú sjónmáli,“ segir Davíð Þór í greininni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert