Lísbet Sigurðardóttir
Eva B. Helgadóttir, lögmaður H-Foss, sem í vetur stóð fyrir gjaldtöku á bílastæðum við Hraunfoss, segir að engin svör hafi borist frá umhverfisráðuneytinu vegna kæru sem félagið sendi til ráðuneytisins eftir að lögregla stöðvaði gjaldtökuna í október í fyrra, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir félagsins til ráðuneytisins.
Enn fremur voru lagðar dagsektir á H-Fossa í maí vegna endurtekinnar gjaldtöku félagsins, en Umhverfisstofnun féll frá dagsektum í maí eftir að gjaldtökunni var hætt.
„Við erum bara ennþá að bíða eftir umhverfisráðuneytinu," segir Eva. Hún telur að ekki séu svo miklar lögfræðilegar flækjur fyrir hendi í málinu sem útskýri seinagang ráðuneytisins til svara. Eva hefur áskilið sér skaðabótarétt fyrir hönd fyrirtækisins vegna þeirra tafa sem málið hefur sætt og segir hægagang úrvinnslunnar hafa mikið tjón í för með sér fyrir fyrirtækið.
Spurð um framhaldið, verði niðurstaða ráðuneytisins óhagfelld félaginu, segir Eva að félagið muni þá fara með málið fyrir dómstóla. „Framhaldið væri þá bara að fara í dómsmál, eftir atvikum og það er í vinnslu að kæra ákvarðanir lögreglunnar og aðgerðir lögreglunnar í málinu."
Eva segir að afstaða félagsins í málinu sé afdráttarlaust sú að félagið hafi rétt til þess að njóta arðs af leigurétti sínum á svæðinu. „Við einstaklingar og fyrirtæki þurfum ekki sérstakar lagaheimildir fyrir því að gera allt sem við viljum gera,“ segir Eva. Hún segir að hins vegar þurfi opinberir aðilar skýra lagaheimild, ætli þeir sér að banna eitthvað. „Þetta er eitthvað sem hefur vafist mikið fyrir Umhverfisstofnun og það er það sem ég er að kæra.“