Farþegar á leið með flugi Primera til Keflavíkur frá Mallorca hafa nú setið fastir í flugvélinni í um þrjár klukkustundir og beðið eftir því að flugvélin komist í loftið þar ytra. Vélin átti upphaflega að fara í loftið í hádeginu, kl. 11:30 að íslenskum tíma, og því er þegar orðin um 9 klukkustunda seinkun.
Farþegarnir eru sagðir áhyggjufullir því svo gæti farið að áhöfninni yrði óheimilt að fljúga með vélinni vegna lögbundins hvíldartíma áhafnarstarfsfólks. Í samtali við mbl.is segir aðstandandi farþega vélarinnar, að farþegarnir séu orðnir óþreyjufullir og að þeir fái litlar sem engar upplýsingar um framvindu mála frá flugfélaginu.