Ísak Ernir nýr stjórnarformaður Kadeco

Ein þeirra eigna sem eru í umsjón Kadeco á Ásbrú.
Ein þeirra eigna sem eru í umsjón Kadeco á Ásbrú. Ljósmynd/Kadeco

Ísak Ernir Kristinsson hefur verið skipaður stjórnarformaður Kadeco. Ísak er 24 ára gamall og hefur verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins síðan hann var unglingur, en það var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem skipaði Ísak í stjórnina. Þetta fékk mbl.is staðfest frá fjármálaráðuneytinu, en Stundin greindi fyrst frá.

Ísak Ernir Kristinsson.
Ísak Ernir Kristinsson. Ljósmynd/Aðsend

Ísak tekur við formennsku stjórnar af hagfræðingnum Georg Bjarnasyni, en sjálfur leggur Ísak stund á viðskiptafræði við Háskóla Íslands og starfar sem flugþjónn hjá WOW air.

Ísak hefur gegnt stöðu formanns Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna og gegnt formennsku í Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur. Þá var hann varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á síðasta kjörtímabili.

Félagið Kadeco var stofnað í október 2006 eftir að Bandaríkjamenn lokuðu herstöð sinni á Keflavíkurflugvelli. Átti félagið að taka við þeim eignum sem ekki yrðu nýttar áfram til flugvallarreksturs eða í öryggissamstarfi NATO. Að því er segir á heimasíðu félagsins er tilgangur þess að leiða þróun og umbreytingu á þessum eignum og landi sem Varnarliðið skildi eftir sig til borgaralegra nota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert