Bjarni Bragi Jónsson, fv. aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands og fv. hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnar Seðlabankans, lést á hjúkrunarheimilinu Grund að morgni sunnudagsins 1. júlí síðastliðins, rétt tæplega níræður að aldri.
Bjarni Bragi fæddist í Reykjavík 8. júlí árið 1928, sonur Jóns Hallvarðssonar, sýslumanns í Stykkishólmi og hrl. í Reykjavík, og Ólafar Bjarnadóttur, húsmóður í Stykkishólmi og Reykjavík og síðar iðnverkakonu í Reykjavík. Systkini Bjarna Braga eru öll látin en þau voru Baldur, Sigríður og Svava.
Bjarni Bragi lauk stúdentsprófi frá MR 1947, viðskiptafræðiprófi frá HÍ 1950, stundaði framhaldsnám við Háskólann í Cambridge í Englandi 1957-59 og fór í náms- og kynnisferðir til ýmissa erlendra og alþjóðlegra hagstofnana.
Hann var skrifstofumaður hjá Olíuverslun Íslands 1947-50, fulltrúi í útflutningsdeild SÍS 1950-55, fulltrúi í hagdeild Framkvæmdabanka Íslands 1955-57 og 1960-62, ritstjóri tímarits bankans, Úr þjóðarbúskapnum, 1962-66, ráðgjafi í OEEC (OECD) National Accounts Division 1959-60, deildarstjóri þjóðhagsreikningadeildar Efnahagsstofnunarinnar árin 1962 til 1969. Bjarni Bragi var forstjóri Efnahagsstofnunarinnar 1969-71, framkvæmdastjóri áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972-76, hagfræðingur Seðlabanka Íslands 1976-83, aðstoðarbankastjóri 1983-94 og hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnarinnar 1994-98 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Þá var Bjarni Bragi stundakennari í hagrannsóknum, þjóðhagsreikningum og áætlunum við viðskipta- og hagfræðideild HÍ 1966-67 og 1974-80. Hann ritaði jafnframt fjölmargar greinar um efnahagsmál. Má þar nefna grein sem hann skrifaði árið 1975 sem bar heitið „Auðlindaskattur, iðnþróun og efnahagsleg framtíð Íslands“. Þar komu fyrst fram hugmyndir um auðlindagjald sem enn er tekist á um í dag.
Eftirlifandi eiginkona Bjarna Braga er Rósa Guðmundsdóttir, f. 1930, B.Ed. og kennari. Börn þeirra eru Jón Bragi, f. 15.8. 1948, d. 3.1. 2011, Ph.D. í efnafræði og prófessor við HÍ, Ólöf Erla, f. 20.5. 1954, keramikhönnuður og kennari við Myndlistarskólann í Reykjavík, og Guðmundur Jens, f. 4.9. 1955, lyfjafræðingur hjá Actavis.