Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veltir því upp á Facebook-síðu forsetaembættisins að taílensku drengirnir sem sitja fastir í helli þar í landi og bíða björgunar fái að leiða liðin inn á völlinn í úrslitaleik HM í Rússlandi.
Forsetinn segist vonast til þess að björgun drengjanna muni ganga vel og spyr síðan hvort það væri „ekki flott“ ef þeir sem ráða byðu drengjunum tólf að leiða liðin sem leika til úrslita í Moskvu 15. júlí næstkomandi inn á knattspyrnuvöllinn.
„Fótbolti er frábær en margt er mikilvægara í lífinu, framar öllu lífið sjálft,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Björgunaraðilar náðu til drengjanna í hellinum í dag og samkvæmt því sem AFP-fréttaveitan hefur eftir ráðamönnum í Chiang Rai-héraði munu kafarar færa þeim mat, auk þess sem læknir mun kafa inn í hellinn og taka út ástand þeirra.