Stakkberg ehf., dótturfélag Arion banka og eigandi kísilverksmiðjunnar í Helguvík, hefur óskað eftir umsögnum um drög að nýrri matsskýrslu fyrir verksmiðjuna.
Til stendur að ræsa ljósbogaofna verksmiðjunnar að nýju en rekstur var stöðvaður með ákvörðun Umhverfisstofnunar hinn 1. september 2017. Í kjölfarið keypti Stakkberg kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi verksmiðjunnar, sem var áður í eigu Sameinaðs sílikons hf.
Í tillögu að matsáætlun er gerð grein fyrir fyrirhuguðum úrbótum á verksmiðjunni, sem munu hafa áhrif á nokkra umhverfisþætti sem fjallað var um við mat á umhverfisáhrifum kísilverksmiðjunnar á sínum tíma. Í tilkynningu frá Stakkbergi kemur fram að félagið hyggist framleiða kísil eins og undanfari þess, eða allt að 100.000 tonn af kísli á ári í fjórum ljósbogaofnum.