„Úrskurðurinn er svolítið óvenjulegur,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í samtali við mbl.is. 48 forstöðumenn ríkisstofnana fengu í gær bréf frá kjararáði þar sem þeim er tilkynnt um launahækkanir.
Ákvörðun kjararáðs tekur til beiðna um launahækkanir sem bárust frá forstöðumönnum ríkisstofnana á árunum 2016 og 2017 og tveimur fyrir þann tíma. Kveðið er á um mánaðarlaun og einingar fyrir störfin í úrskurðinum. Hann leiðir til þess að laun forstöðumannanna breytast mismikið, en vegin meðaltalshækkun er um það bil 10,8%. Hækkunin gildir frá 1. desember í fyrra.
Henný segir að fyrir utan hækkunina veki athygli að þarna sé verið að úrskurða um fjölda forstöðumanna í einu lagi. Á vefsíðu kjararáðs má sjá að árið 2017 var eitt skjal með rökstuðningi fyrir hækkun hvers forstöðumanns, til að mynda hét skjal „Orkumálastjóri“ og annað „Forstjóri Landsnets“ o.s.frv. Fyrir úrskurðinn sem birtur var í gær stendur eingöngu „Ýmis störf sem heyra undir kjararáð“.
Henný segir að forstöðumennirnir sendi sjálfir inn ósk um að laun þeirra séu endurskoðuð og því fylgi rökstuðningur. Yfirleitt þegar úrskurðir eru birtir er gerð grein fyrir þeirra rökum og ráðið óskar eftir umsögnum frá viðkomandi ráðuneytum.
„Það er ekki verið að úrskurða með þessum hætti nema það hafi orðið einhver breyting á starfinu eða eitthvað slíkt. Þetta kemur til viðbótar þeim almennu hækkunum sem kjararáð úrskurðar um til allra sem undir ráðið hafa heyrt,“ segir Henný.
Hún segir að það veki athygli að engan rökstuðning sé að finna í úrskurðinum. „Það er bara talað um að mig minnir á einum stað í rökstuðningi að það hafi orðið ýmsar breytingar á lögum og hlutverkum margra þessara stofnana. Þetta er mjög takmarkaður rökstuðningur. „Það er eins og verið sé að klára þann stafla sem eftir varð þegar leggja átti ráðið niður. Þetta er mjög vond stjórnsýsla.“
Á vefsíðu ASÍ er úrskurðinn gagnrýndur. Þar segir að svanasöngur kjararáðs séu kaldar kveðjur til launafólks sem komi í kjölfarið á fréttum af tugprósenta hækkunum á launum forstöðumanna ríkisfyrirtækja.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir það vera verkefni verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að hækkanirnar verði fordæmisgefandi í komandi kjaraviðræðum, enda metnar „hóflegar“ af viðkomandi stjórnum. Það sé óásættanlegt að í þessu landi búi tvær þjóðir, yfirvaldið og almenningur sem um gildi mismunandi lögmál. Við það muni verkalýðshreyfingin aldrei sætta sig.