Guðmundur Magnússon Erna Ýr Öldudóttir
Í gær barst 48 forstöðumönnum ríkisstofnana bréf frá kjararáði þar sem þeim er tilkynnt um úrskurð ráðsins um laun þeirra og starfskjör. Úrskurðurinn, sem dagsettur er 14. júní, var jafnframt birtur á vefsíðu kjararáðs í gær, en engin fréttatilkynning var send út um málið.
Lög um ráðið voru felld úr gildi á Alþingi fyrir nokkrum dögum og hætti það starfsemi nú um mánaðamótin. Úrskurðurinn er því síðasta verk kjararáðs.
Ákvörðun kjararáðs tekur til beiðna um launahækkanir sem bárust frá forstöðumönnum ríkisstofnana á árunum 2016 og 2017 og tveimur fyrir þann tíma. Kveðið er á um mánaðarlaun og einingar fyrir störfin í úrskurðinum. Hann leiðir til þess að laun forstöðumannanna breytast mismikið, en vegin meðaltalshækkun er um það bil 10,8%. Hækkunin gildir frá 1. desember í fyrra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Hér er hægt að lesa úrskurð kjararáðs í heild en hann er birtur á vef ráðsins