„Þetta er allt á sömu bókina lært,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við síðasta verki kjararáðs; launahækkunum 48 forstöðumanna ríkisstofnana.
Ákvörðun kjararáðs tekur til beiðna um launahækkanir sem bárust frá forstöðumönnum ríkisstofnana á árunum 2016 og 2017 og tveimur fyrir þann tíma. Kveðið er á um mánaðarlaun og einingar fyrir störfin í úrskurðinum. Hann leiðir til þess að laun forstöðumannanna breytast mismikið, en vegin meðaltalshækkun er um það bil 10,8%. Hækkunin gildir frá 1. desember í fyrra.
Þrettán forstöðumannanna eru með meira en eina milljón króna í föst mánaðarlaun eftir úrskurðinn. Hæstu launin fær forstjóri Landspítalans, 1.294.693 krónur, en næsthæstu rektor Háskóla Íslands, 1.251.843 krónur. Til viðbótar við hin föstu laun ákvarðaði kjararáð forstöðumönnunum mismunandi fjölda eininga á mánuði fyrir alla yfirvinnu sem störfunum fylgir. Einingarnar eru á bilinu 15 til 50.
Ragnar segir framkomu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra dæmalausa en Bjarni sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri „saga hins íslenska samningamódels að allir líti á sig sem sérstaka og að þeir eigi að hækka meira en aðrir. Þannig höfum við farið í gegnum hverja kjaralotuna á eftir annarri í gegnum tíðina og endað úti í skurði, hreinlega“.
Ragnar telur að eina höfrungahlaupið sem er í gangi sé í efstu lögum samfélagsins. „Það er alveg á hreinu hverjir eru að búa til þetta höfrungahlaup,“ segir Ragnar og bætir við að það sé ódýrt að reyna að skella skuldinni um launaskrið á herðar ljósmæðra þegar þær krefjist einfaldlega leiðréttingar í takt við nám og ábyrgð.
„Að setja þetta upp að ábyrgðin sé almenna vinnumarkaðarins eins og fjármálaráðherra gerir í gær er algjörlega óþolandi orðræða sérstaklega þegar stjórnvöld bera meginábyrgð á launaskriði efsta lagsins sem hefur verið undirfarið,“ segir Ragnar og bætir við að félagsmenn í VR muni ekki sætta sig við litlar hækkanir þegar þeir setjist næst að samningaborðinu.
„Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna um áramótin og það liggur alveg ljóst fyrir að við munum nota þessar hækkanir til hliðsjónar við okkar kjarabaráttu.“