Segja bresti í landamæraeftirliti Schengen-svæðisins

Samkvæmt áhættumati er ekki talin ástæða til þess að grípa …
Samkvæmt áhættumati er ekki talin ástæða til þess að grípa til sambærilegra aðgerða og Svíar vegna Schengen, segir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Sænsk stjórnvöld telja innra öryggi sínu ógnað vegna alvarlegra bresta í eftirliti með ytri landamærum Schengen-svæðisins. „Ríkislögreglustjóri hefur ekki, fram til þessa, talið ástæðu til að hækka viðbúnaðarstig á grundvelli áhættumats og leggja til að taka upp aukna landamæravörslu hér á landi,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns um áhættumat íslenskra stjórnvalda.

Mánudag síðastliðinn tók gildi hert landamæraeftirlit í Svíþjóð sem veldur því að farþegar sem ferðast frá Norðurlöndunum eða öðrum aðildarríkjum Schengen geta lent í því að vera spurðir um skilríki.

Frá ár­inu 2015 hefur landamæraeftirlit verið hert­ á af­mörkuðum svæðum í Svíþjóð, en nú ná aðgerðir sænskra stjórnvalda til fleiri ferðamáta og svæða, svo sem flug­valla og hafna.

Þá hafa dönsk, norsk, austurrísk og þýsk stjórnvöld einnig haft hert eftirlit frá 2015, en þessi ríki hafa ekki aukið umfang aðgerða sinna eins og Svíar, að sögn Sigríðar.

Byggir á áhættumati

Samkvæmt tilkynningu sænskra stjórnvalda til þarlendra fjölmiðla hefur hert landamæraeftirlit verið rökstutt með áliti stjórnvalda að innra öryggi Svíþjóðar og öryggi almennings sé ógnað. Þessi ógn er sögð stafa af „alvarlegum brestum í eftirliti með ytri landamærum Schengen-svæðisins sem gerir mögulegum hryðjuverkamönnum og glæpamönnum fært að komast inn á Schengen-svæðið. Þetta leiðir til þess að við verðum að framfylgja eigin landamæraeftirliti.“

Í svari sínu til blaðamanns segir Sigríður „Íslensk stjórnvöld taka fullan þátt í Schengen-samstarfinu og fá því upplýsingar um áform nágrannaríkja okkar þegar kemur að beitingu neyðarúrræða svo sem upptöku tímabundins eftirlits á innri landamærum einstakra þátttökuríkja Schengen-svæðisins.“

Hún bendir á að „landamæragæsla ríkjanna byggir á áhættumati sem framkvæmt er reglulega af hálfu löggæsluyfirvalda í hverju landi fyrir sig. Svíar hafa nú einir tekið ákvörðun um að taka upp viðameiri landamæragæslu á innri landamærum sínum þar sem löggæsluyfirvöld þar í landi telja alvarlega ógn við almannaöryggi enn til staðar.“

Segist fylgjast með stöðunni

„Ég virði þá ákvörðun Svía eins og annarra samstarfsríkja innan Schengen enda er enn töluvert flæði fólks yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins sem síðar leitar alþjóðlegrar verndar á Norðurlöndunum,“ segir dómsmálaráðherra í svari sínu.

Sigríður segir ríkislögreglustjóra ekki telja ástæðu til þess að hækka viðbúnaðarstig á grundvelli áhættumats. „Ég held áfram að fylgjast vel með stöðunni í góðu samráði við embætti ríkislögreglustjóra og á vettvangi Schengen-samstarfsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert