3,5 milljóna eingreiðsla vegna kjararáðs

Mánaðarlaun forstjóra Landspítalans hækkuðu um hálfa milljón við úrskurðinn.
Mánaðarlaun forstjóra Landspítalans hækkuðu um hálfa milljón við úrskurðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forstjóri Landspítalans fékk greiddar rúmar sex milljónir nú um mánaðamótin eftir ákvörðun kjararáðs um launahækkanir frá í síðasta mánuði. Þar af nam eingreiðsla vegna afturvirkra hækkana 3,5 milljónum en laun júlímánaðar voru 2,5 milljónir. Hann er einn 48 forstöðumanna ríkisstofnana hverra starf var „endurmetið“ í síðasta mánuði.

Laun forstjórans voru áður 2.088.993 krónur á mánuði en eru nú 2.586.913 krónur. Munar þar um 497.000 krónum eða tæpum 24%. Launahækkunin skýrist af því að yfirvinnueiningum forstjórans er fjölgað úr 100 í 135 auk þess sem hann er færður upp í launaflokki.

Ákvörðun kjararáðs er afturvirk frá 1. desember 2017 og við útborgun um mánaðamótin fengu ríkisforstjórarnir því greiddan mismuninn milli gömlu launanna og þeirra nýju sjö mánuði aftur í tímann að viðbættum mánaðarlaunum júlímánaðar.

Því fékk forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, 6.072.353 krónur greiddar um mánaðamótin, fyrir skatt.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Mánaðamótin voru líka gjöful hjá rektor Háskóla Íslands. Kjararáð fjölgaði yfirvinnueiningum hans úr 38 í 40 og hækkaði um launaflokk og hækkuðu laun hans því úr 1.353.571 krónu í 1.634.723 krónur. Launahækkunin nemur einföldum lágmarkslaunum, 281.152 krónum eða sem nemur 21%. Afturvirk leiðrétting og mánaðarlaun fyrir júlí hafa því fært rektor um 3,6 milljóna eingreiðslu nú um mánaðamót.

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins fær öllu minni hækkun en hinir tveir, en er eftir sem áður næsthæstur þeirra 48 forstjóra sem ráðið tók fyrir í úrskurðinum. Laun hans eru 1.649.043 krónur á mánuði en voru 1.536.973 krónur. Hækkunin nemur 112.070 krónum eða 7,3% af launum. Ástæða þess að forstjóri Samkeppniseftirlitsins hækkar minna en starfsbræður hans í Háskólanum og spítalanum er sú að yfirvinnueiningum hans er ekki fjölgað. Þær eru enn 50, þótt starfið sé fært upp um launaflokk.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kjararáð var lagt niður um mánaðamótin. Laun þeirra sem heyrðu undir ráðið réðust af þeim launaflokki sem ráðið setti starfið í og átti það að „taka tillit til starfsskyldna og ábyrgðar, hæfniskrafna, vinnuframlags og álags er starfi fylgja“ að því er sagði í lögum um kjararáð.

Ráðið setti síðan launatöflu þar sem krónutala fyrir hvern flokk er ákvörðuð. Sú tafla er uppfærð reglulega og skal það gert í samræmi við almenna launaþróun í landinu; síðast árið 2016, en fyrir það árlega frá árinu 2011.

Með ákvörðun sinni frá í síðasta mánuði var kjararáð ekki að uppfæra launatöfluna heldur að endurmeta störfin, færa forstjórana upp launaflokka og fjölga yfirvinnueiningum. 

Eins og kom fram í umfjöllun mbl.is í gær er hinn nýi úrskurður ráðsins óvenjulegur fyrir þær sakir að enginn rökstuðningur fylgir endurmatinu á störfunum, ólíkt því sem áður hefur tíðkast. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert