Gott veður á Héraði – rigning í Reykjavík

Fljótsdalshérað í blíðviðri.
Fljótsdalshérað í blíðviðri. Steinunn Ásmundsdóttir

Besta helgarveðrið verður á Héraði, enn eina helgina. Þetta segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is. Hitinn á morgun gæti náð 15-18 gráðum á Egilsstöðum og auk þess eru hitatölur góðar á Norðurlandi, 12 gráður og sól á Akureyri á hádegi.

Annars staðar á landinu verður hitinn á bilinu 8-13 gráður á morgun. Veðrið í höfuðborginni er samt við sig. Á morgun þykknar upp og úrkomubakki með súld og rigningu fer yfir landið um kvöldið. Búast má við rigningu í Reykjavík annað kvöld.

Yfir helgina verða suðlægar áttir og útlit er fyrir skúrir um allt land á laugardaginn, líka á Egilsstöðum.

Sunnudagur byrjar á svipuðum nótum og aðallega hlýtt á norðaustanverðu landinu, þar sem búast má við hita á bilinu 15-20 gráður. Í Reykjavík verður hins vegar sunnangjóla með þungbúinni rigningu og hita í kringum 8-10 gráður.

Rigning hefur einkennt sumarið í borginni það sem af er, og engin breyting verður á því í næstu viku, rætist spá Veðurstofunnar. Bróðurpartur vikunnar verður vætusamur og þungskýjaður sunnanlands, en flott veður á Héraði, Vopnafirði, við Skjálfandaflóa og raunar á Norðausturlandi öllu.

Veðurvefur mbl.is

Strákarnir á N1-mótinu á Akureyri þurfa að þola smá rigningu …
Strákarnir á N1-mótinu á Akureyri þurfa að þola smá rigningu á morgun, en hann ætti að hanga þurr á sunnudag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert