Landspítalinn hefur verið dæmdur til að greiða sjúkrahúsprestinum Braga Skúlasyni hálfa milljón króna í miskabætur vegna ráðningar Rósu Kristjánsdóttur djákna í starf deildarstjóra djákna og presta hjá spítalanum árið 2016. Taldi Bragi að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn og segir í dóminum að ráðningarferlinu hafi verið ábótavant.
Starfið var auglýst laust til umsóknar í maí árið 2016 og sóttu fimm um starfið. Þar af voru fjórir boðaðir í viðtal. Í auglýsingunni kom fram að starfið fæli í sér að leiða framþróun þjónustunnar samhliða starfi við sálgæslu. Hæfniskröfur voru framhaldsmenntun í sálgæslu (CPE), framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfileikar, reynsla og þekking á stjórnun, rík þjónustulund og frumkvæði og skýr framtíðarsýn.
Dómurinn féllst ekki á kröfu Braga um að óheimilt hafi verið að ráða í starfið án aðkomu biskups. Aftur á móti er það niðurstaða dómsins að ekki hafi farið fram heildstætt mat eða samanburður á menntun eða hæfni umsækjenda til að sinna sálgæslu, en sá hlutur átti að teljast til 75% starfsskyldu deildarstjórans á móti 25% stjórnendahlutverki.
Við mat á stjórnendareynslu hafi einnig verið horft fram hjá reynslu Braga úr starfi sínu við sálgæslu hjá Ríkisspítölum, forvera Landspítalans. Við einkunnargjöf hlaut Bragi lægstu einkunnir sínar í þættinum „reynsla og þekking á stjórnun – áætluð færni í stjórnun og forystu“ og segir í dóminum að spítalinn hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni við að meta reynslu hans af stjórnun skorar sjúkrahússpresta í tæplega áratug. Hafi því verið horft fram hjá hæfari einstaklingi þegar ráðið var í starfið.
Af þessu sögðu er það mat dómsins að staðið hafi verið með saknæmum og ólögmætum hætti að ráðningarferlinu. „...málsmeðferð stefnda var slíkum annmörkum háð að starfsmenn hans teljast hafa vanrækt veigamikil atriði í rannsókn sinni við undirbúning ráðningar deildarstjóra sálgæslu djákna og presta. Varð sú vanræksla til þess að ekki var litið til þess að stefnandi var í reynd hæfari umsækjandi en sá einstaklingur sem ráðinn var í starf deildarstjóra og gat þetta að ófyrirsynju bitnað á orðspori stefnanda og orðið honum þannig að meini. “
Hins vegar telur dómurinn að Bragi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið hæfasti einstaklingurinn og þannig orðið af starfinu þrátt fyrir ráðningu Rósu. Hafi tveir aðrir einstaklingar verið boðaðir í viðtal og ekki verið slegið föstu að hæfni Braga hafi verið meiri en þeirra. Er spítalinn því sýknaður af skaðabótakröfu, en dæmdur til að greiða Braga miskabætur upp á hálfa milljón. Þá þarf spítalinn einnig að greiða honum 1,6 milljónir í málskostnað.