Málmtæring í gírkassa olli þyrluslysinu

Frá vettvangi þyrluslyssins, sem kostaði 13 manns lífið.
Frá vettvangi þyrluslyssins, sem kostaði 13 manns lífið. AFP

Rúm tvö ár eru síðan þyrla af gerðinni Airbus H225 Super Puma hrapaði við Turøy í Hörðalandi í Noregi, með þeim afleiðingum að 13 manns létust. Rannsóknarnefnd flugslysa í Noregi segir í lokaskýrslu sinni um slysið að málmtæring í gírkassa hafi valdið slysinu og að ekki hafi verið um mannleg mistök að ræða.

Endanlegar niðurstöður nefndarinnar voru kynntar á blaðamannafundi í Sandsli í dag og fjallað er um þær á vef NRK, norska ríkisútvarpsins.

Áður hafði rannsóknarnefndin komist að þeirri frumniðurstöðu að svokallaður „plánetugír“ (n. planetgir) í þyrlunni hefði sprungið sökum slits og tæringar. Það varð til þess að aðalspaðabúnaður­inn losnaði skyndilega af þyrlunni á flugi og þeytt­ist áfram, á meðan hinn hluti þyrlunn­ar féll til jarðar 29. apríl árið 2016. Allir þrettán um borð létust.

Þyrlan sem hrapaði var sömu tegundar og tvær þyrlur sem Landhelgisgæsla Íslands fær afhentar í lok ársins eða byrjun næsta árs, en eftir slysið við Turøy var lagt tímabundið bann við notkun þyrla af þessari tegund í Noregi og varði það bann til júlí í fyrra.

„Þetta er búin að vera krefjandi rannsókn. Við höfum komist að því að málmtæring var bein orsök slyssins. Það voru yfirborðsskemmdir í innanverðum gírnum sem stækkuðu án þess að nokkur tæki eftir,“ sagði Kåre Halvorsen, formaður rannsóknarnefndarinnar, á blaðamannafundinum, en yfirborðsskemmdirnar má rekja til málmagna sem búnaður um borð í þyrlunni hefði sjálfvirkt átt að nema og láta vita af.

Rannsóknarnefndin komst hins vegar að því að búnaðurinn hefði einungis numið 12% af þeim málmögnum sem voru lausar innan í gírkassanum og telur að Airbus þurfi að breyta hönnun gírkassanna til þess að gera þá öruggari.

Airbus hafi ekki gert nóg til að bregðast við

Samanburður við hrap annarrar Super Puma-þyrlu í Skotlandi árið 2009 var hluti rannsóknarinnar, en í því slysi létust sextán manns. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar dregur fram skýr líkindi á milli slysanna tveggja.

Halvorsen sagði á blaðamannafundinum að það væri mat nefndarinnar að Airbus hefði ekki gert nóg til að bregðast við þeim ábendingum sem bárust í kjölfar þess að þyrlan í Skotlandi hrapaði. Eftirfylgni fyrirtækisins hafi ekki verið nægileg.

Tveir framleiðendur hafa framleitt gírkassa í þyrlur af þessu tagi. Norska nefndin komst að þeirri niðurstöðu að annar framleiðandinn, sá sami og framleiddi gírkassa þyrlunnar sem hrapaði við Turøy, framleiði mun lakari gírkassa en hinn og að einungis 10% gírkassa frá þessum tiltekna íhlutaframleiðanda endist áætlaðan líftíma sinn.

Rannsóknarnefndin slær því föstu að Airbus hafi ekki rannsakað af hverju gírkassar frá öðrum íhlutaframleiðandanum endist skemur en hinir. Nefndin hefur rannsakað aflagða gírkassa af sömu gerð og séð að málmtæringu hafi einnig verið að finna í þeim.

Alls hefur norska nefndin komið tólf ábendingum áleiðis vegna rannsóknar sinnar, flestum þeirra til EASA, flugöryggisstofnunar Evrópu.

NRK greinir frá því að Airbus taki gagnrýninni fagnandi og að skýrsla nefndarinnar verði tekin til ítarlegrar skoðunar hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið segir sömuleiðis, í tölvupósti, að það harmi að slysið hafi átt sér stað.

Fjölmiðillinn Tekniske Ugeblad greindi þó frá því í morgun að Airbus sé ósammála ýmsu sem fram komi í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar og hyggist ef til vill gera athugasemdir við niðurstöður nefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert