Farþegar utan Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins munu í framtíðinni þurfa rafræn ferðaleyfi áður en ferðast er til Schengen-svæðisins, þar með talið Íslands.
Evrópuþingið samþykkti í gær reglur þess efnis. Kerfinu, sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið, er ætlað að auka öryggi innan álfunnar. Stefnt er að því að taka það í notkun árið 2021.
Kerfið ber nafnið ETIAS (European Travel Information and Authorisation System) og er að fyrirmynd ESTA-kerfisins bandaríska. Þá eru svipuð kerfi til staðar í Kanada og Ástralíu.
Farþegar frá ríkjum, sem ekki þurfa vegabréfsáritun til að komast inn á Schengen-svæðið, munu þurfa að fylla út rafrænt eyðublað þar sem þeir gefa upp persónuupplýsingar á borð við nafn, fæðingardag og stað, kyn og þjóðerni auk upplýsinga um hversu lengi verður dvalið á svæðinu. Þá verða, rétt eins og í bandarísku umsókninni, spurningar um sakaskrá og hvort farþegarnir hafi ferðast til átakasvæða.
Leyfið mun kosta fullorðna 7 evrur, en vera frítt fyrir börn, og gilda í þrjú ár. Upphaflega stóð til að leyfið kostaði 5 evrur og gilti í fimm ár.
Áformin hafa engin áhrif á frjálst flæði fólks innan Schengen-svæðisins eða þeirra Evrópusambandsríkja sem ekki tilheyra Schengen-svæðinu: Írland, Rúmenía, Búlgaría, Kýpur og Króatía, en til stendur að síðastnefndu ríkin fjögur gangi í Schengen-svæðið á næstunni.
Þannig mun kerfið ekki koma við Íslendinga, en ferðamenn frá löndum utan Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins munu að öllum líkindum þurfa leyfi til að koma til Íslands.
Þó að Evrópuþingið hafi samþykkt lögin eiga þau enn eftir að fara fyrir ráðherraráð Evrópusambandsins en ekki er búist við að það setji sig upp á móti áætlununum sem eru hluti af landamæraáætlun sambandsins, sem nefnist Snjöll landamæri og tekur gildi 2020.