Toppaði læknaprófið með landsliðið í hjáverkum

Elín Metta var efst allra á læknisfræðiprófinu í síðasta mánuði.
Elín Metta var efst allra á læknisfræðiprófinu í síðasta mánuði. Kristinn Magnússon

Elín Metta Jensen er fótboltaáhugamönnum vel kunnug, en hún hefur verið lykilmaður í sterku liði Valsmanna sem er í toppbaráttu í Pepsideildinni og í íslenska landsliðinu sem er á góðri leið með að tryggja sér sæti á HM í Frakklandi á næsta ári.

Hæfileikar Elínar eru þó ekki bundnir við völlinn því hún skoraði hæst í inntökuprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands, sem fram fór á dögunum, og mun því hefja nám í læknadeildinni í haust.

Allt tekið skrefinu lengra í Bandaríkjunum

Elín segist alltaf hafa stefnt á læknisfræði þegar hún var yngri. Hún fór í MR og á náttúrufræðibraut, en með árunum hafi áhuginn dofnað. Eftir útskrift úr MR 2015 fór hún í nám í ríkisháskólanum í Florida í Bandaríkjunum á fótboltastyrk.

Aðspurð segir hún að umgjörðin um boltann í Bandaríkjunum sé allt önnur en hér heima. „Það er meira aðhald og fleiri reglur. Mikið hugsað um næringu,“ segir Elín og segir háskólaboltann dálítið eins og að vera í sumarbúðum. Leikmönnum er flogið á milli leikja í einkaþotu ólíkt rútuferðunum sem Pepsideildarleikmenn verða að gera sér að góðu.

„Það eru ákveðnir hlutir sem eru teknir skrefinu lengra þarna úti. Allur tækjabúnaður til dæmis sjúkraþjálfunarbúnaður er alltaf til staðar,“ segir hún. Meiri áhersla sé lögð á form leikmanna en á móti séu þeir ekki eins teknískir og þeir íslensku.

 „Ég held að kvennafótboltinn í Bandaríkjunum græði svolítið á hvað amerískur fótbolti þénar mikið í háskólunum.“

Elín Metta Jensen kann vel við sig í bláa búningnum.
Elín Metta Jensen kann vel við sig í bláa búningnum. mbl.is/Árni Sæberg

 Eftir rúmt ár úti sneri Elín aftur til Íslands og gekk til liðs við uppeldisfélagið, Val. Þar hefur hún leikið stórt hlutverk undanfarin ár og er helsti markaskorari liðsins, með níu mörk í fyrstu átta leikjum tímabilsins. Heima á Íslandi fór áhuginn á læknisfræðinni að vakna á ný. Systir Elínar, Katrín Þórarinsdóttir, og Berglind Bergmann, unnusta bróður hennar, eru báðar læknar. „Þær eru rosalega flottar fyrirmyndir og hafa hjálpað mér ótrúlega mikið fyrir prófið.“

Elín reyndi við inntökupróf læknadeildarinnar í fyrra og var nálægt því að komast inn, en gekk ekki.

En var markmiðið að vera efst núna?
„Nei alls ekki. Þetta kom mér mjög á óvart,“ segir Elín. Hún hafi ekki einu sinni verði viss um að hún kæmist inn þegar hún gekk út úr prófinu. „Það munar oft svo litlu á þeim sem komast inn og þeim sem rétt missa af því,“ segir hún.

Spurð hvað heilli við læknisfræðina segir Elín námið vera fjölbreytt. „Það eru svo óteljandi margir fletir á því og mikil sérhæfing í boði.“  Elín er sérstaklega áhugasöm um siðfræðihlut læknisfræðinnar og samskipti læknis við sjúkling, sem hún segir mikilvægan þátt í læknastarfinu enda fyrirferðarmikill á inntökuprófinu. Hún hefur þó ekkert ákveðið sérstaklega í hverju hún vill sérhæfa sig.

Margir taka sér mánaðafrí frá skóla og vinnu til að læra fyrir inntökuprófið, en það var auðvitað ekki í boði fyrir Elínu, sem þurfti að sinna Valsmönnum og íslenska landsliðinu í hjáverkum. „Ég reyndi bara að hugsa um þetta [undirbúninginn fyrir inntökuprófið] eins og skrifstofuvinnu, 8-4,“ segir Elín. Boltinn hafi síðan átt kvöldin. Áhyggjur blaðamanns af svefnvenjum Elínar voru óþarfar. Hún nær 8-9 tímum á nóttu. „Það er fátt mikilvægara en að ná góðum svefni. Ég get ekki gengið annars.“

Í ljósi velgengninnar síðustu árin ætti ekki að koma á óvart ef erlend lið fara að sýna henni áhuga. Aðspurð segist Elín vera með báða fætur á jörðinni þó að hún geti alveg hugsað sér að spila einhvern tímann í útlöndum. 

„Ég er bara mjög ánægð með Val, liðið mitt. Við erum búin að fá góða leikmenn til baka úr meiðslum og aðra til landsins. Það er gott tempó á æfingum og gaman að vera hluti af þessu.“ Markmiðið núna sé að vera í toppbaráttunni í Pepsideildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka