Ég var orðinn gjörsamlega sturlaður“

Allir þeir sem fikta við vímuefni eins og sterk verkjalyf …
Allir þeir sem fikta við vímuefni eins og sterk verkjalyf og kvíðastillandi lyf geta orðið næsta fórnarlamb. AFP

„Þú getur dáið úr fikti,“ segir móðir ungs manns sem hefur verið án fíkniefna í á annað ár. Hann er einn af þeim heppnu, hann er á lífi. En það sem af er ári hafa um 20 dauðsföll verið til skoðunar hjá embætti landlæknis þar sem grunur leikur á að þau megi rekja til eitrunar.

Þrátt fyrir að hann hafi verið án vímuefna, hvort heldur sem þau eru lögleg eða ólögleg í þennan tíma þá er baráttunni við fíknina hvergi nærri lokið og henni lýkur aldrei. Hann óttast að það verði ekki allir jafnheppnir og hann því neysla á lyfseðilsskyldum lyfjum hefur stóraukist meðal ungs fólks undanfarin misseri. Ekki síst á kvíðastillandi lyfjum og verkjalyfjum.

Hann reynir að forðast aðstæður sem minna á fyrra líf því hann ætlar sér að hafa betur í baráttunni við fíknina. En á hverjum degi þarf hann að glíma við löngun. Sem oft er svo sterk að hún heltekur hann.

Móðir hans hefur staðið sem klettur við hlið hans í þessari baráttu en það tekur á. Hún segir að það hafi í raun ekki verið fyrr en hann varð átján ára sem hjálpin kom.

Háður við fyrsta sopa

„Ég var greindur ofvirkur, með athyglisbrest og kvíða sem krakki og fór snemma á lyf. En það er ekki þess vegna sem ég fór í neyslu því strax við fyrsta sopa þá varð ég háður þó svo ég viðurkenndi það ekki fyrst,“ segir hann.

Móðir hans bendir á að tölfræðin sýni að hann var strax kominn í áhættuhóp um átta ára aldur þegar hann fékk greiningarnar. Um svipað leyti skipti hann um skóla og varð fyrir einelti, bæði af hendi eldri krakka sem og bekkjarfélaga.

Áfengið tók í burtu vanlíðan hans en það var aðeins …
Áfengið tók í burtu vanlíðan hans en það var aðeins tímabundinn léttir. AFP

„Ég er ekkert einsdæmi og ekki hægt að segja að þetta hafi átt að senda mig á þessa braut sem ég fór. Ég átti líka alltaf vini og mér gekk mjög vel í skóla. Þegar ég drakk í fyrsta skipti, 13 ára gamall í partýi með krökkum sem voru einu ári eldri en ég þá gerðist eitthvað. Við vorum tvö sem keyptum saman landabrúsa og ég þambaði nánast hálfan brúsa í einum sopa.  Ég drakk mig í óminni á þessu fyrsta fylleríi. Ég hafði aldrei smakkað áfengi áður og hafði lítið verið í kringum áfengi enda drekkur mamma ekki og áfengi aldrei haft um hönd þar,“ segir hann.

Tilfinningin var dásamleg. Áfengið tók kvíðann og óöryggið í burtu og honum leið eins og hann gæti gert allt.  Á þessum tíma hafði hann verið á þunglyndislyfjum og ADHD-lyfjum en þau hafi ekki veitt honum sömu hugarró og hamingju. „Mig langaði strax aftur á fyllerí morguninn eftir,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið mjög sáttur í eigin skinni undir áhrifum.

Sérfræðingur í að fara á bak við mömmu

Fljótlega fór hann að drekka hverja helgi og oft í miðri viku. Hann segir að það hafi aldrei hvarflað að honum á þessum tíma að hann væri einn af 10% sem glíma við fíkn. Heldur hafi hann alltaf litið á sig sem einn af 90% sem ræður við neyslu áfengis. Alls konar aðferðum var beitt til þess að koma í veg fyrir mamma hans kæmist að drykkjunni og hann gætti þess að fara að reglum heimilisins. Að vera ekki kominn seint heim og til þess að hún myndi ekki finna áfengislyktina af honum þá bruddi hann kaffibaunir og át engifer. Skothelt ráð segir hann til þess að drepa lyktina. Hann viðurkennir að það hafi farið mikil orka í að leita á netinu að leiðum til þess að fela neysluna. „Ég var orðinn algjör sérfræðingur í að fara á bak við mömmu.“

Honum gekk alltaf vel í skóla og í fyrstu breyttist …
Honum gekk alltaf vel í skóla og í fyrstu breyttist það ekki þrátt fyrir neyslu. mbl.is/Eyþór Árnason

Mamma hans segir að hún hafi fljótt vitað að ekki væri allt með felldu enda var hann farinn að sýna af sér aðra hegðun en hann hafði gert áður og átti oft erfitt með að ráða við skapið. Til þess að fjármagna neysluna í fyrstu vann hann skólaverkefni fyrir aðra enda afar ritfær og gekk mjög vel í námi.

„Ég man að þegar ég var 14-15 ára þá hugsaði ég að þetta væri að verða pínu vandamál hjá mér, það er drykkjan, þannig að ég ákvað að prófa að hætta að drekka í mánuð. Ég gat það og þurfti ekki meira til þess að sannfæra sjálfan mig um að ég gæti hætt hvenær sem ég vildi.“

Hún segir að þau hafi í raun verið hvort í sínu liðinu á þessum árum. Hann alltaf að reyna að fela neysluna og hún að reyna að nappa hann. Til þess að fá aðstoð frá barnaverndaryfirvöldum varð hún að sýna með óyggjandi hætti að hann væri í neyslu en á þessum tíma voru þegar komnar inn tilkynningar um son hennar vegna áhættuhegðunar.

„Það var ótrúlegt hvernig honum tókst að snúa sig út úr hlutunum,“ segir hún og hann bætir við að lífið hafi verið eitt leikrit í hans huga.

„Ég fann til að mynda á tölvunni hans að hann er að biðja einhvern vin sinn á spjallsíðu um að útvega sér eitthvert dóp og ég tók skjáskot af því og sendi til barnaverndar. Síðan frétti ég að hann væri að selja dóp og bað fólk um að tilkynna hann til lögreglunnar og hún kom í kjölfarið og leitaði að dópi. Þannig að við vorum bæði í fullri vinnu. Ég við að reyna að nappa hann og hann að fela fyrir mér,“ segir hún.

Þú ert bara ímyndunarveik

„Þegar maður býr með virkum alkóhólista þá fer maður ósjálfrátt að efast um eigin dómgreind. Maður hefur eitthvað á tilfinningunni en það er alltaf kjaftað niður í kaf. Ég vissi kannski eitthvað en fékk síðan frá honum að ég sé ímyndunarveik,“ segir hún og hann bætir við að þetta hafi verið eftirlætissetningin hans á þessum tíma: „Þú ert bara ímyndunarveik.“

Á þessum tíma var hann byrjaður að selja ofvirknilyfin sín til þess að eiga fyrir áfengi en hann var lítið sem ekkert að nota kannabis en það hefur aldrei höfðað til hans. Eins mælist það í þvagi og mamma hans var byrjuð að láta hann skila þvagprufum reglulega. „Kannabis mælist lengi í þvagi og ég vissi að ef ég myndi mælast þá yrði ég sendur í meðferð. Ég var svo rosalega hræddur við þá félagslegu útskúfun sem það hefði í för með sér. Að vera sendur í meðferð svona ungur. Ég efast um að það hefði verið gott fyrir mig á þessum tíma. Það var því markmið hjá mér allan tímann að ég ætlaði aldrei að láta senda mig á meðferðarstofnun. Hvort sem það voru Stuðlar, Háholt eða Vogur. Ég kynnti mér því hvernig kerfið virkaði því þú verður að læra þetta svo þú náir að snúa þig út úr þessu.“

Þyrfti að bjóða upp á blóðprufur

Þarna sá hann að áfengið gengi ekki upp og ekki heldur kannabis þar sem svo auðvelt er að mæla það í þvagi. Móðir hans gafst samt ekki upp og alltaf var hún að láta hann taka þvagprufur. Sem er ekki ókeypis því hver prufa kostar um tvö þúsund krónur. Hún segir að það þyrfti að vera boðið upp á það fyrir foreldra að geta komið með ungmenni á heilsugæslustöðvar þar sem tekin er úr þeim blóðprufa. Því þvagprufur gangi kaupum og sölum en það sé erfiðara með blóðið. Eins geti verið erfitt fyrir foreldri af gagnstæðu kyni að krefjast þess að barnið pissi í glas fyrir framan það. Eitt af því sem sonur hennar gerði var að líma sprautu með 25 ml af hreinu þvagi á bakhlið ísskáps en þeir gefa frá sér hita þannig að prufan var af réttu hitastigi þegar hún krafði hann um sýni. Því einu sinni hafði hún næstum því gripið hann þegar hann framvísaði þvagprufu sem var óeðlilega köld.

Skammturinn stækkaði hratt sem hann þurfti til þess að komast …
Skammturinn stækkaði hratt sem hann þurfti til þess að komast í vímu. AFP

Í tíunda bekk var amfetamínið orðið eftirlætisvímugjafinn. „Ég byrjaði að nota amfetamín nánast daglega þegar ég er enn í grunnskóla og var jafnvel að fá mér inni á klósetti í skólanum. Amfetamín tók í burtu vanlíðanina úr hausnum á mér en þar sem amfetamín er mjög ávanabindandi varð ég háður því mjög fljótt. Ég var byrjaður að selja fíkniefni á þessum tíma, seldi meðal annars amfetamín og það í mjög miklu magni til þess að fjármagna eigin neyslu. Ég ætlaði aldrei að selja dóp þegar ég var yngri en þetta tekur allt siðferði frá þér,“ segir hann.

Mamma hans segir að hún hafi vitað að hann væri að selja fíkniefni og eins hafi hann verið að gera alls konar óforskammaða hluti sem hann hefði aldrei gert ef hann hefði ekki verið í neyslu.

Ég var glæpamaður

Spurð út í hvað hann hafi gert segja þau mæðgin að hann hafi verið mjög ofbeldisfullur og ekki hikað við að berja fólk sem skuldaði honum fyrir fíkniefnum.

„Þú sérð ekki mun á réttu og röngu og gerir þér enga grein fyrir því í hvernig ástandi þú ert. Eina sem kemst að í huganum er að útvega sér næsta skammt. Ég var glæpamaður sem var að gera ógeðslega hluti sem ég er alls ekki stoltur af. Ég reyndi stundum að hætta að nota amfetamín en það gekk bara ógeðslega illa. Síðan drakk ég um hverja helgi með dópinu. Sýn mín á heiminn var svo brengluð og ekki bætti úr að mér leið ömurlega enda mjög þunglyndur á þessum tíma. Ég held að þú getir ekki verið í mikilli fíkniefnaneyslu og verið hamingjusöm manneskja. Ég trúi því einfaldlega ekki. Fólkið sem ég umgekkst var ekki í góðum málum og ég var í sömu sporum.“

Þegar heildsalinn hans fór í fangelsi varð hann að finna sér nýjan farveg og nýir félagar og nýir vímugjafar tóku við.  

Efsta lag píramídans næst yfirleitt aldrei heldur eru það þeir …
Efsta lag píramídans næst yfirleitt aldrei heldur eru það þeir sem selja fíkniefni fyrir næsta skammti. AFP

„Ég kynntist fólki sem var allt öðruvísi. Kóksalar sem keyrðu um á flottum bílum og lifðu flott. Þar kynntist ég kókaíni í fyrsta skipti og það var magnað enda hrikalega ávanabindandi. Þetta var sumarið eftir tíunda bekk og ég þurfti aðeins brot úr grammi til þess að taka flugið,“ segir hann.

Vikurnar urðu ekki margar þangað til hann þurfti stærri og stærri skammta sem er erfitt fyrir þá sem ekki vaða í seðlum. Þetta leiddi hann út í sölu á kókaíni á fyrsta ári í menntaskóla. Ekki leið á löngu þangað til hann var horfinn frá námi enda athyglin annars staðar á þessum tíma. Neyslan var fjármögnuð með fíkniefnasölu og öðru sem ekki fer á ferilskrána, ekkert frekar en sala á eiturlyfjum. „Að selja eiturlyf er hörkuvinna,“ segir hann.

Að hans sögn þurfa flestir þeirra sem eru í mikilli neyslu vímuefna að fjármagna hana með sölu. Fíkniefnasalar á Íslandi selja ekki úti á götu eða skólalóðum eins og margir halda. Salan fer fram á netinu, einkum Facebook og á samskiptasíðum, auk þess sem salar eru með ódýra síma og frelsiskort fyrir viðskiptin. Fíkniefnasölu fylgir mikil áhætta enda fylgist lögreglan vel með slíkum dópsíðum. Hann kom sér því fljótlega út úr þessu og fór að kaupa stærri skammta sem hann seldi síðan vinum og kunningjum.

Þeir sem eru síðan í efsta lagi píramídans sleppi yfirleitt alltaf – undirtyllur taka áhættuna. Þeir sem eru í efsta lagi vímuefnapíramídans notfæra sér veikindi annarra og græða á tá og fingri.

Mamma hans segir þetta tímabil hafa einkennst af miklu rugli í kringum son hennar. Ítrekað var tilkynnt um hann til barnaverndar og hennar líf snerist að miklu leyti um að leita að honum og reyna að fá einhverja lausn á hans málum. Hann tók meðal annars þátt í vopnuðu ráni, seldi fíkniefni auk þess sem hann sýndi alvarlega sjálfsskaðahegðun og var vegna þess lagður inn á barna- og unglingageðdeildina (BUGL) um tíma.

„Þrátt fyrir að þvagprufurnar hafi verið hreinar þá var hann í bullandi neyslu, bæði hér heima og úti í bæ. Skapofsaköstin skelfileg og ég alltaf að skrifa til barnaverndar enda ástandið mjög slæmt á heimilinu bæði fyrir mig og yngra systkini. Þegar hann er orðinn sautján ára er öllum ljóst að hann er í mikilli neyslu en þar sem það var svo stutt í að hann yrði 18 ára þá var lítið sem barnavernd vildi gera í málinu. Honum var boðið upp á að fara í úrræði hér í Reykjavík sem hann vildi ekki gera og ég var mjög ósátt við að hann gæti á barnsaldri neitað aðstoð. Á sama tíma og hann var í bullandi neyslu og þurfi fyrir hjálp sem hann vildi ekki þiggja,“ segir hún. Drengurinn átti lögheimili hjá mér og var ólögráða. Hann hélt heimilinu í gíslingu og samt fengum við ekki þá aðstoð sem við þurftum.“

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans tekur ekki við börnum sem eru …
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans tekur ekki við börnum sem eru í neyslu. mbl.is/Hari

Úrræðið kom of seint

Í tíunda bekk fór hann í MST-meðferð á vegum Barnaverndarstofu en fjölskyldan beið í hálft ár eftir þeirri meðferð. Sex mánuðir er langur tími í lífi einstaklings sem er í mikilli neyslu ekki síst á þessum aldri.

Á vef Barnaverndarstofu segir: MST er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda á mörgum sviðum.

Hegðunarvandinn getur komið fram á sviðum eins og lögregluafskiptum, skrópum eða verulegum erfiðleikum í skóla, líkamlegu ofbeldi eða hótunum, eða vímuefnanotkun.

MST fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerir þá kröfu að barnið búi á heimilinu.

Mæðginin eru sammála um að MST hafi ekki nýst honum þar sem hann var orðinn of langt leiddur í neyslu á þessum tíma. Hann varð hins vegar færari í að leyna neyslunni enda fékk hann fyrirmyndarumsögn af hálfu þeirra sem komu að MST-meðferðinni. Varðandi eftirfylgnina þá var hún líka til fyrirmyndar því hann bjó enn inni á heimilinu og gerir í rauninni enn. En neyslan stöðvaðist ekki á meðan meðferðin stóð yfir.

„Mamma er baráttumanneskja og gefst aldrei upp en þetta var að drepa hana. Það er ekki hægt að setja ábyrgðina á foreldrana því þeir eru engan veginn færir um að sinna þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera með ungling í bullandi neyslu í MST-meðferð á heimilinu. Þetta skilaði nákvæmlega engum árangri hjá mér þó svo að ég hafi komið út sem fyrirmyndardæmi að mati þeirra sem voru í MST-teyminu.“

Allt þetta hefur tekið sinn toll auk þess sem fleiri vandamál hafa komið upp á heimilinu því yngra barn á heimilinu hefur glímt við veikindi. Endaði það með því að móðirin var lögð inn á geðdeild þar sem hún var búin á líkama á sál.

„Ég var algjörlega búin á því og það er ekki fyrr en ég hótaði sjálfsvígi að ég fékk hjálp. Ég sem hef ekki einu sinni glímt við þunglyndi. Við vissum það og í raun allir að það var orðið of seint þegar MST hófst. Við þurftum svo miklu meiri aðstoð en okkur var boðin. Ég man sérstaklega eftir einum fundi með barnavernd og fleirum. Þar er mér tjáð að það þurfi að reyna til þrautar. Að reyna til þrautar þýðir erfiðleikar. Í rauninni er mér sagt að við þurfum að ganga í gegnum mikla erfiðleika til þess að fá hjálp.

mbl.is/Hari

Ég missti heilsuna og þurfti á endurhæfingu að halda. Foreldrar sem eru í þessum aðstæðum eru úrvinda og stór hluti ástæðunnar er öll orkan sem fer í baráttuna við kerfið. Þessu þarf að breyta. Að ef þú átt barn sem veikist á geði eða af fíkn þá áttu ekki að þurfa endalaust að vera á hnefanum í baráttunni fyrir aðstoð. Þetta er ekki svona ef barnið þitt glímir við líkamleg veikindi. Samt eru veikindin alveg jafnalvarleg því miður.“

Ég hringdi eitt símtal og boltinn fór að rúlla

Síðasta árið sem hann var í neyslu fór sífellt að halla meir og meir undan fæti. Neyslan var nánast stöðug og líkaminn farinn að kalla á hjálp. Eftir að hafa fengið flogakast og verið lagður inn á sjúkrahús reyndi hann að hætta neyslu sjálfur og einangraði sig í rúma viku. „Ég sat heima allan daginn og horfði á þætti í tölvunni og hafði ekkert samband við félagana. Síðan ákvað ég að kíkja í partý og stal Concerta (ADHD-lyf) frá mömmu sem ég seldi fyrir kókaíni. Ég var búinn að vera tvær mínútur í partýinu þegar ég vissi að ég yrði að fá kókaín og það strax. Ég hringdi eitt símtal og boltinn fór að rúlla.“

Hann reyndi ítrekað hætta, minnka neysluna og breyta henni. Hætti í kókaíni tímabundið og drakk þeim mun meira af áfengi og drykkjum með morfínskyldum efnum út í.  Móðir hans bendir á að fíkn sé sennilega einu veikindin þar sem foreldrar og börn vinna ekki saman að því markmiði að yfirvinna veikindin. Þetta sé stöðug barátta þeirra á milli þar sem foreldri reynir að fá barnið ofan af neyslunni á meðan barnið reynir að fela neysluna. Eins fylgir þessu mikil skömm og fáir tilbúnir til að leggja fram hjálparhönd eða styðja við bakið á fárveikri fjölskyldu.

Tvær töflur af Xanax kosta um þrjú þúsund krónur.
Tvær töflur af Xanax kosta um þrjú þúsund krónur. Wikipedia

Snemma árs 2017 voru margir félagar hans farnir að taka kvíðastillandi lyf,  Xanax, til þess að komast í vímu. Bæði lyf sem er framvísað af læknum eða heimatilbúin útgáfa sem er framleidd hér á landi. Hann segir framleiðsluna einfalda og ekkert ósvipaða framleiðslu á e-töflum. „Þú útvegar þér pillupressu eins og eru notaðar við að pressa e-töflur og gerir þínar eigin Xanax-töflur.“ 

Þetta er gert úr því sem kallast flúni (flunitrazepam, oft kallað rohypnol), flúniduftið er gríðarlega sterkt, að hans sögn og getur reynst erfitt að áætla hversu sterkar töflur þú ert með í höndunum.

„Við vissum ekkert hvað við vorum með í höndunum og að þessi lyfseðilsskyldu lyf eru miklu hættulegri en þessi ólöglegu efni sem eru í gangi. Það eru ekki bara harðir dópistar sem eru að taka þessi lyf því þetta eru venjulegir krakkar í menntaskólum sem kaupa þessi lyf fyrir helgar. Tvær töflur kosta kannski þrjú þúsund krónur sem dugar vel til þess að komast í vímu. Áhrifin eru hrikaleg án þess að þú gerir þér grein fyrir því. Þú verður svo kærulaus og þetta slær á kvíðann. Til dæmis ef þú ert að nota kannabis eða kókaín þá verður þú kvíðinn en svo tekur þú Xanax og kvíðinn hverfur eins og dögg fyrir sólu.“

Fráhvörfin skelfileg

Hann segir að það hafi ekki verið vitglóra í hausnum á honum á þessum tíma. „Ég var orðinn gjörsamlega sturlaður og mundi ekki neitt stundinni lengur. Var kannski að fá lánað dóp og hafði ekki hugmynd um það. Ég var brjálaður í skapinu og í rauninni algjörlega stjórnlaus. Það liðu kannski heilu helgarnar sem ég var meira og minna rænulaus af ofneyslu,“ segir hann.

Um svipað leyti er hann gripinn með mikið magn eiturlyfja á sér og þar sem hann er ekki orðinn 18 ára þá var hann sendur á Stuðla. Engin fíkniefnapróf voru tekin þar og fráhvörfin fljótt skelfileg. Mamma hans fór með hann á Barnaspítala Hringsins þar sem fíkniefnapróf sýndi svart á hvítu að hann þurfti á fráhvarfslyfjum að halda.

Fallið var hratt og skellurinn eftir því þegar neyslan hófst …
Fallið var hratt og skellurinn eftir því þegar neyslan hófst að nýju. mbl.is/Hari

„Ég var búinn að taka svo mikið af efnum að það var ekki vitglóra í hausnum á mér. Ég var í raun sturlaður og sá ofskynjanir. Ég þurfti að mæta í réttarsal og var enn svo dópaður og bullaði einhverja tóma þvælu. Þetta er eiginlega það súrrealískasta sem ég hef upplifað. Síðar frétti ég hjá vini mínum að ég hefði keypt af honum 250 Xanax-töflur nokkrum dögum áður og ég var búinn með þær allar.“

„En ég og félagar mínir vorum ekki einir í þessum sporum því það er fullt, fullt af krökkum sem eru að taka þessar töflur alveg eins og ég gerði. Kannski ekki allir í jafnmiklu mæli og ég og ég held að við eigum eftir að sjá miklu fleiri dauðsföll á næstu mánuðum. Því þú getur dáið þrátt fyrir að þetta sé kannski bara fikt.“

Eftir þetta fór hann í meðferð á ungmennadeildina á Vogi og var þar í tíu daga. Hann fór hins vegar ekki í framhaldsmeðferð sem varð honum væntanlega að falli. Því tíu dagar duga skammt og eru í raun bara afeitrun.

Ekki leið langur tími þangað til hann féll og fallið var hátt og skellurinn eftir því. Við tók taumlaus neysla með eldra fólki. Þar á meðal reykti hann krakkkókaín eða „fríbeisaði“ eins og það er kallað (freebase á ensku).

„Ég vissi það alveg innst inni að ég yrði að fara í meðferð aftur. Ég tók allt of mikið af Xanaxi og kókaíni á þessum tíma og auðvitað gefur sig eitthvað. Hjá mér var það þannig að ég réðst á félaga og gekk í skrokk á honum,“ segir hann.

Hann fór oftar en einu sinni á Stuðla.
Hann fór oftar en einu sinni á Stuðla. mbl.is/Hari

Mamma hans segir að á þessum tíma hafi hún verið orðin ráðþrota. Sama hvað hún reyndi að gera ekkert gekk. Ekki nóg með að hún hafi verið fullsödd af ástandinu heldur líka nágrannarnir. Henni voru farnar að berast hótanir um að vegna fjölda kvartana ætti hún yfir höfði sér að vera borin út af eigin heimili. Hún vissi að ofbeldismenn væru á eftir syni hennar og hún gæti ekki varið hann allan sólarhringinn.

„Ástæðan fyrir því að ég leyfði þessu að ganga svona lengi var sú að með því að leyfa honum að vera heima þá vissi ég að hann var á lífi.“

Ég ætlaði bara að klára þetta

Sonur hennar segir að þarna hafi hann verið kominn í algjört öngstræti og ekki séð neina aðra lausn en að taka eigið líf. „Ég var meira að segja búinn að kaupa mér reipi og ætlaði bara að klára þetta. En mér var komið inn á fíknigeðdeildina og þar hófst bataferlið.“

Mamma hans bætir við að þarna hafi hann verið átján ára og því ekki lengur barn samkvæmt lögum. Annars hefði geðdeild ekki verið í boði því BUGL tekur ekki á móti börnum sem eru í neyslu. „Ef þetta hefði verið í dag þá hefði hann komið að lokuðum dyrum því fíknigeðdeildin er lokuð í sumar. Hún lokaði 15. júní og opn­ar ekki aft­ur fyrr en 7. ág­úst.“

„Ég hefði aldrei þolað þá höfnun,“ segir hann. Á fíknigeðdeildinni fór hann að fara yfir líf sitt undanfarin ár og þarna sá hann að hans vandamál tengdust áfengis- og fíkniefnaneyslu. „Í nokkur ár heltóku þessi efni mig og allt mitt líf snerist um neyslu.“

Meðferð á Vogi og síðan framhaldsmeðferð kom honum til bjargar.
Meðferð á Vogi og síðan framhaldsmeðferð kom honum til bjargar.

Hann fór beint af fíknigeðdeild inn á Vog og var ákveðinn í því að neyslunni væri lokið. Eftir tíu daga á Vogi fór hann í fjögurra vikna eftirmeðferð á Staðarfelli. Hann segir að þetta hafi verið gríðarlega erfitt og hver dagur hafi tekið á. „En það var ekkert annað í boði. Þetta væri eitthvað sem ég yrði að gera. Mér fannst líka erfitt að vita af því að mamma væri jafnvel að missa heimilið sitt út af mér. Eftir þetta forðast ég allt sem tengist neyslu enda er hún lífshættuleg. Ég ætla ekki að reyna að fegra þetta. Þetta er hryllilega erfitt og ég er aldrei óhultur. Ég þarf að minna mig stöðugt á að ég er fíkill og ég má aldrei gleyma því. Ég forðast fólk í neyslu og fer ekki á þá staði þar sem vímuefna er neytt.“

Mamma hans segir að margir félagar hans úr neyslunni hafi leitað til hans eftir stuðningi og styrk þegar þeir fara í meðferð. En það komast ekki allir á það stig því hann hefur á stuttum tíma misst góða vini sem hafa ofskammtað. Hann bendir á að krakkar sem eru að byrja í neyslu í dag, til að mynda á morfínskyldum lyfjum, búi ekki yfir þekkingu og reynslu þeirra sem hafa verið lengur að nota slík efni. Til að mynda að sofna aldrei á bakinu vegna hættunnar á því að kafna í eigin ælu. Þegar slíkra efna er neytt þá eru uppköst yfirleitt fylgifiskur og ef enginn er nálægt þér þegar þú sofnar þá er voðinn vís ef þú liggur á bakinu.

Hann hefur í tvígang þurft að fara í aðgerð eftir að hann hætti neyslu og í fyrra skiptið ætlaði hann að fara í hana lyfjalaus. Bara það að fá verkjastillandi dugði til að koma huganum á yfirsnúning. Hugsun um hvernig hann gæti útvegað sér kókaín einn tveir og þrír. „Ég veit að ég get ekki lifað af í neyslu og ef ég fell þá er ég dauður.“

Bið eftir hjálp getur kostað mannslíf.
Bið eftir hjálp getur kostað mannslíf. mbl.is/hag

Snýst um að halda mér á lífi

Hann hefur því í bæði skiptin farið í viðhaldsmeðferð á Vogi í kjölfar aðgerða þar sem hann hefur þurft á kvalastillandi lyfjum að halda. „90% af lífi mínu snýst um að detta ekki í það. Þetta snýst allt um að halda mér á lífi.“

Þau segja nauðsynlegt að bjóða upp á meðferðar- og skaðaminnkunarúrræði fyrir börn yngri en átján ára og hætta að einblína á hegðunarvanda krakka í neyslu. „Þetta er ekki hegðunarvandi heldur er þetta heilbrigðisvandi,“ segir hún. „Það er ekki hægt að neita barni um heilbrigðisþjónustu. Til að mynda ef barn þarf á fráhvarfslyfjum að halda þá er það ekki í boði á Stuðlum. Eins þarf fíknigeðdeild fyrir börn því þau geta glímt við tvíþættan vanda áður en þau ná fullorðinsaldri.“

Alls eru átján meðferðarúrræði í boði fyrir ungmenni. Sex á Stuðlum, sex á Lækjarbakka og sex á Laugarlandi. „Við erum að tala um alls átján pláss og hvað eru unglingarnir margir? Tölfræðin segir okkur að 4% þeirra glími við fíkn. Við erum með 18 pláss fyrir fárveik börn,“ segir mamma hans.

Hún segir að stjórnvöld verði að gera sér grein fyrir stöðunni og viðurkenna veikindi þessara barna. „Þetta eru fárveik börn og allar fjölskyldur þeirra líða fyrir það hvað lítið er gert fyrir þennan hóp. Meðferðarúrræði sem geta breytt öllu eru varla fyrir hendi og með því að styðja við bakið á þessum fjölskyldum er hægt að bjarga mannslífum.

Eiga börn sem glíma við fíkn og foreldrar þeirra ekki rétt á því að það sé komið fram við þau af virðingu og vandi þeirra viðurkenndur?“

Hún segir margt gott fólk vinna í barnaverndarkerfinu en það fái því miður ekki þá umgjörð sem þörf er á til þess að sinna þessum einstaklingum sem eru fárveikir.

Þau eru sammála um að þetta sé mál sem þoli enga bið. Ekki sé boðlegt að bíða mánuðum saman eftir hjálp því biðin kostar mannslíf. Stundum þarf svo lítið til þess að vera lífshættulegt. Þú getur dáið af fikti einu saman og þá er orðið seint að bjóða fram aðstoð.

Ungt fólk í öngstræti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert