Nokkrir sérfræðingar Veðurstofunnar hafa verið við mælingar og rannsóknir í Hítardal í dag, bæði við að mæla skriðuna sem fór niður Fagraskógarfjall og svo vatnamælingamenn sem skoða rennsli Hítarár eftir að skriðan stíflaði árfarveginn.
Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur á vakt, segir í samtali við mbl.is að það muni taka nokkra daga að vinna úr gögnunum sem verið sé að safna í dag. Segir hann að meðal annars sé verið að skanna skriðuna með leysigeisla til að finna út rúmmál hennar. Segir hann að það muni liggja fyrir eftir nokkra daga með nokkuð nákvæmum hætti. Það sé vitað í dag að skriðan hafi verið nokkrar milljónir rúmmetra, en hversu margir sé enn óvíst.
Magni segir að út frá forkönnun sem framkvæmd var í gær á vettvangi sé líklegt að rigning síðustu mánuði hafi haft áhrif á að skriðan fór fram. „En svo hlýtur að hafa verið veikleiki í landinu sem hefur gefið sig,“ segir hann og bætir við að þessi tvö atriði séu líklegustu meginorsakirnar. Spurður hvort sífreri í jörð geti verið ein af ástæðunum segir Magni að fyrir fram sé það ólíklegt. Hann segir að í framhaldinu muni ofanflóðadeildin skoða betur þessa veikleika á svæðinu, meðal annars með loftmyndum til að sjá hvort einhverjar sprungur sé þar að finna.
Auk skriðufræðinga sem fóru á vettvang í dag voru einnig vatnamælingamenn frá Veðurstofunni sem skoðuðu rennsli og aðra þætti Hítarár og Tálma, sem er þveráin sem Hítará rennur nú í.