Hítará hefur fundið nýjan farveg

Eins og sjá má á myndinni í neðra vinstra horninu …
Eins og sjá má á myndinni í neðra vinstra horninu er áin búin að finna sér leið úr lóninu. Fyrir neðan skriðuna er aftur á móti gamli farvegur árinnar nánast þurr. Ljósmynd/Mihails Ignats

Hítará hefur fundið sér nýjan farveg eftir að skriða féll úr Fagraskógarfjalli og stíflaði ána í gærmorgun. Lón myndaðist fyrir ofan skriðuna, en eftir því sem það fylltist fór að renna suður með skriðunni í þverána Tálma. Sú á rennur svo um 10-12 kílómetrum neðar aftur í gamla farveg Hítarár.

Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal, segir í samtali við mbl.is að Hítará sé vegna þessa nánast þurr á þessum 10-12 kílómetra kafla. „En þetta var það skásta í stöðunni,“ segir hann. Segir Finnbogi að lítið vatn sé á þessum tíma í Hítará og það geti orðið mun meira í leysingum. Óvíst sé hversu vel Tálmi geti tekið við slíku vatnsmagni og að líklega verði landskemmdir síðar meir þegar fari að rífa í bakkana.

Finnbogi segir alveg ómögulegt að áin fari í kringum skriðuna og í gamla farveginn og að vonlaust sé að fara í það verkefni að reyna að grafa í gegnum skriðuna. „Þetta er hreinlega of mikið,“ segir hann. „Þetta gat verið verra ef áin hefði farið lengra í suður og í nýtt land,“ segir hann, en bætir við að það sé aldrei að vita hvað gerist þegar svona landbreytingar eigi sér stað. „Ef hún heldur sér þarna er þetta ásættanlegasta leiðin.“

Skriðan bar gríðarlegt magn efnis með sér niður fjallshlíðina og …
Skriðan bar gríðarlegt magn efnis með sér niður fjallshlíðina og yfir dalinn. Ljósmynd/Mihails Ignats

Síðan í gær hefur verið talsverð umferð inn í Hítardal og fjöldi manns viljað sjá ummerkin að sögn Finnboga. Lögreglan lokaði svæðinu í gær þegar ekki var vitað hvort hætta væri á staðnum, en opnaði svo aftur í nótt að sögn Finnboga. Í morgun hafi hún svo aftur lokað veginum að skriðunni sjálfri. Aðrir vegir séu opnir.

Á þeim 10-12 kílómetra kafla sem Hítará er þurr er meðal annars laxastigi við Kattarfoss sem er einnig þurr. Segir Finnbogi að á þessu svæði sé gjöfult laxveiðisvæði og því ljóst að talsvert sé tjónið.

Geir Björnsson flugmaður er einn þeirra sem hefur flogið yfir skriðuna í dag og fór hann ásamt ljósmyndaranum Mihails Ignats sem tók myndirnar sem fylgja fréttinni. Geir segir í samtali við mbl.is að ofan á skriðunni megi sjá mosabreiður og að sér virðist út frá því að skriðið hafi undan fjallshlíðinni og hún svo fylgt með þannig að efsti hluti jarðvegsins hafi haldist ofan á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert