Eftir skriðuna úr Fagraskógarfjalli í Hítardal í gær blasir við nakið sár í fjallinu, enda skreið heil fjallsöxl niður í hamförunum. Ljósmyndari sem var á ferð í morgun náði myndum af fjallinu skýjalausu og þar sést vel hversu gríðarlegir kraftar hafa verið þarna á ferð.
Þeir Geir Björnsson flugmaður og Mihails Ignats ljósmyndari flugu yfir dalinn í morgun og tóku meðfylgjandi myndir.
Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur áin fundið sér nýjan farveg og flæðir hún nú frá skriðunni og í þverána Tálma. Sú á rennur svo um 10-12 kílómetrum sunnar í farveg Hítarár á ný, en gamli farvegurinn er að mestu þurr þaðan og upp að skriðu.
Skriðan sjálf er talin vera um 1,8 ferkílómetrar að stærð samkvæmt gervitunglamyndum ESA, en enn á eftir að koma í ljós hversu mikið rúmmál efnis fór þarna niður hlíðina.