Ofurhuginn hljóp „of langt“

Jón Eggert Guðmundsson.
Jón Eggert Guðmundsson. mbl.is/Brynjar Gauti

Ofurhuginn Jón Eggert Guðmundsson stefnir hraðbyri í átt að heimsmeti í þríþraut. Hann hefur lokið við tvær greinar af þremur, hlaup og hjólreiðar, og byrjaði í dag á síðasta leggnum, sundi.

Jón viðurkennir í samtali við mbl.is að hann sé orðinn nokkuð lúinn en heildarkílómetrafjöldinn verður meiri en áætlað var í upphafi. Það skýrist á því að hann hljóp „of langt“ en ákveðin hlutföll verða að vera á milli greinanna þriggja.

„Ég var í svo miklu stuði í lok apríl, veðrið var gott og ekkert að hrjá mig. Ég ákvað að hlaupa 15 dögum lengur en ég ætlaði mér í upphafi. Þá lengdist allt saman,“ segir Jón.

Hlutföllin eru á þá leið að 77% heildarleiðarinnar verða að vera hjóluð, 20% hlaupin og 3% synd. Jón á einungis eftir sundið en hann hefur nýlokið fyrsta sundsprettinum.

Var orðinn þreyttur á hjólinu

„Fyrsti sunddagurinn gekk vel en ég er svolítið stirður eftir hjólið og hlaupinn. Ég verð kominn í gírinn eftir svona þrjá daga,“ segir Jón en hann hjólaði 5.800 kílómetra og hljóp 1.456 kílómetra.

Jón hlær þegar hann er spurður hvort hann sjái eftir því að hafa hlaupið lengra en áætlað var. „Undir lokin á hjólinu var ég alla vega orðinn frekar lúinn.“

Hann segir ýmislegt hafa á daga sína drifið. Eitt skiptið var hann að hjóla í úrhellisrigningu og þrumuveðri þegar elding slóst í gangstéttina um tíu metra frá honum. „Hún fór í gangstéttina og straumurinn leiddi í hjólið. Bæði dekkin sprungu og gírskiptingin eyðilagðist. Ég slapp!“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert