Framleiðslugeta Hítarár minnkar verulega

Skriðan teygir sig frá Fagraskógarfjalli vel yfir Hítardal.
Skriðan teygir sig frá Fagraskógarfjalli vel yfir Hítardal. Ljósmynd/Mihails Ignats

„Við reynum að gera okkur grein fyrir stöðunni og hvaða áhrif þetta hefur á laxastofninn,“ segir Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, sem nú rannsakar áhrif grjótskriðunnar úr Fagraskógarfjalli á Hítará.

Skriðan féll á laugardag og stíflaði Hítará í Hítardal. Í fyrstu myndaðist lón ofan við stífluna, en áin fann sér síðan farveg í þveránni Tálma sem sameinast Hítará tíu til tólf kílómetrum neðar.

„Sú vinna stendur yfir núna að meta áhrifin út frá þeim upplýsingum sem við höfum. Ég er að reyna að meta svæðin sem verða fyrir áhrifum, hve stór þau æru og gæði þeirra fyrir lax. Þegar þar að kemur veit ég hvaða áhrif þetta hefur á framleiðslugetu árinnar.“

Sigurður getur ekki sagt til um áhrifin einmitt núna en segir ljóst að þau verði talsverð. „Það er alveg ljóst að framleiðslugeta árinnar mun minnka verulega. Þessi atburður er fordæmalaus í seinni tíð.“

Íbúafundur í Lyngbrekku í kvöld

„Það eru að detta út þarna einhverjir átta til tíu kílómetrar af Hítará og það er lítið sem kemur í staðinn. Hún brýtur sér leið ofan í Tálma, en það verður ekki til mikið nýtt svæði við það.“

Sigurður hyggst verða tilbúinn með einhvers konar samantekt í kvöld, en hann verður viðstaddur á íbúafundi í félagsheimilinu Lyngbrekku vegna hamfaranna. Fundurinn hefst klukkan 20 og er ætlaður til upplýsingar fyrir þá íbúa sveitarfélagsins sem tengjast hamfarasvæðinu á einhvern hátt. Til fundarins hafa verið boðaðir fulltrúar lögreglu og almannavarna, Landsbjargar, Veðurstofunnar, Landgræðslunnar, Veiðimálastofnunar, Bændasamtakanna og Náttúruhamfaratryggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka