Framkvæmdir við hús Björgólfs Thors Björgólfssonar að Fríkirkjuvegi 11 eru „algjörlega á lokametrunum“ að sögn Ragnhildar Sverrisdóttur, talsmanns Björgólfs Thors. Unnið hefur verið að því að gera þetta veglega hús upp frá því í júní árið 2015.
Athafnamaðurinn Thor Jenssen, langafi Björgólfs Thors, lét byggja Fríkirkjuveg 11 á árunum 1907 til 1908 en húsið var hannað af Einari Erlendssyni arkitekt. Minjastofnun friðaði hluta innra byrðis hússins í maí 2015 en ytra byrðið var friðað í maí 1978.
„Húsið er nánast alveg fullbúið núna,“ segir Ragnhildur en bætir við að enn sé eftir frágangur á marmaramálningu auk annarra smærri verka. Hún reiknar með að öllum framkvæmdum verði lokið á haustdögum.
Ekki er komið endanlega á hreint hvert hlutverk hússins verður nákvæmlega, segir Ragnhildur, en er Björgólfur Thor keypti húsið á 650 milljónir króna af Reykjavíkurborg árið 2007 og kom fram í tilboðinu að tilgangurinn með kaupunum væri að gera húsið aðgengilegt fyrir almenning.
„Það eru ýmsar hugmyndir á lofti um hvernig húsið verður nýtt, en ég get ekki sagt þér neitt meira. Það er bara verið að vinna í þeim málum. Ég get ekki sagt þér það, ekki af því að það sé leyndarmál heldur af því að það liggur ekki alveg fyrir,“ segir Ragnhildur.
Er framkvæmdir hófust var gert ráð fyrir því að kostnaður við endurbæturnar næmi um 400 milljónum króna, en að hann gæti orðið enn meiri ef ófyrirséðar hindranir kæmu upp er vinna hæfist.
Ragnhildur vill ekkert gefa upp um kostnaðinn við verkið, enda bara um „prívat“ kostnað að ræða. Hún spyr þó létt í bragði hvort áætlanir hafi einhvern tímann staðist á Íslandi.
„Það er alla vega mjög vel vandað til allra verka þarna. Mjög fallega og vel gert upp.“