Húsfyllir á íbúafundi í Hítardal

Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. Ljósmynd/Theodór Kristinn

Íbúafundur var haldinn vegna náttúruhamfaranna í Hítardal í félagsheimilinu Lyngbrekku í kvöld. Á fundinum voru íbúar sem tengjast hamfarasvæðinu með einhverjum hætti upplýstir um stöðu mála, þ.e.a.s. hvað vitað væri um skriðuna og hvernig vöktun yrði háttað í framhaldinu. 

Meðal annars var rætt um möguleika við uppgræðslu á svæðinu og vöktun á nýjum farvegi Hítarár hvað varðar landbrot. Húsfyllir var á fundinum.

Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, sem sá um fundarstjórn, segir að góður tónn hafi verið í fólki á fundinum. Eðlilega hafi fólki brugðið við vegna skriðunnar, en væri þó yfirvegað.

„Fólk var ánægt með að geta haft skoðanaskipti, fengið svör við spurningum og ekki síst að fá tilfinningu fyrir því hvernig hlutaðeigandi stofnanir bregðast við og vakta ástandið frá ólíkum sjónarhornum,“ segir Gunnlaugur.

Gestir fundarins voru Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Vesturlandi, og Jón S. Ólason yfirlögregluþjónn, Magni Hreinn Jónsson frá Veðurstofu Íslands, Sigurjón Einarsson frá Landgræðslunni, Sigurður Már Einarsson frá Veiðimálastofnun, Jón Örvar Bjarnason frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Torfi Bjarnason frá Búnaðarsamtökum Vesturlands og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Veðurstofan heldur áfram næstu daga og vikur að rannsaka svæðið eftir ljósmyndum og öðrum gögnum. Lögregla mun á næstu dögum setja upp aðvörunarskilti á svæðinu vegna grjóthruns, en enn hrynur úr skriðusárinu í Fagraskógarfjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert