„Það rigndi mikið í gærkvöldi og í nótt og áin er að rífa meira með sér af gróðri og svoleiðis. Veiðimönnum gengur ver að veða í augnablikinu, það festist í önglinum hjá þeim,“ segir Ólafur Sigvaldason, formaður veiðifélags Hítarár, en áin fann sér nýjan farveg í kjölfar skriðu úr Fagraskógarfjalli á laugardag. „Hún þarf tíma til að hreinsa sig.“
Skriðan, sem er ein sú stærsta á sögulegum tíma á Íslandi, stíflaði Hítará þannig að lón myndaðist en áin fann sér síðan farveg í hliðaránni Tálma. Sú á er ekki vön svo miklu vatnsrennsli og því hefur botngróður líklega tekið upp og jafnvel úr bökkum hennar. „Það bætti ekki úr skák að fá þessa úrkomu,“ segir Ólafur.
Ljóst er að skriðan hefur talsverð áhrif á laxveiði í ánni, en að sögn Ólafs mætti síðasti hópur sem átti bókað í veiði í gær og veiddi nokkra fiska. Honum skildist þó að þeim hafi gengið illa í morgun. „Það er meira af gróðri sem er að koma núna, en þetta tekur allt af.“
Mbl.is náði tali af Orra Dór Guðnasyni, forstöðumanni Grettistaks sem hefur samið um leigu á Hítará eftir að yfirstandandi veiðitímabili lýkur, í morgun. Orri var bjartsýnn á ástandið og taldi jafnvel að Hítará gæti orðið betri laxveiðiá þegar upp verður staðið.
„Það er svo sem ekkert útilokað,“ segir Ólafur aðspurður hvort hann taki undir með Orra. „Þegar þetta er búið að jafna sig, það er að segja ef við látum ána vera svona. Það á eftir að kanna það hvort það séu einhverjar leiðir til þess að fá hana aftur á sinn stað. Ef það verður ekki gert þá náttúrulega jafnar þetta sig, hvernig sem það kemur út verður bara að koma í ljós.“