„Vinur minn öskrar á okkur að það sé hvítabjörn beint fyrir framan okkur og byrjar að hlaupa í burtu,“ segir David Zehla leiðsögumaður, í samtali við mbl.is, sem var að veiða silung í Hraunhafnará í gærkvöldi með frönskum vinum sínum þegar þeir komu auga á fyrirbæri sem leit út fyrir að vera hvítabjörn.
„Ég hafði ekki tíma til að ganga úr skugga um að þetta væri hvítabjörn í skelfingarástandinu sem kom upp því við vorum á harðahlaupum. Ég reyndi að líta til baka meðan við hlupum í burtu en sá ekkert elta okkur,“ segir David sem hélt fyrst að um hrút eða kind væri að ræða en bætir því við að hann sé ekki með góða sjón.
„Ég sá alla vega eitthvað stórt en ég get ekki sagt með fullri vissu hvort þetta hafi verið hvítabjörn eða hrútur,“ segir David.
Hann segir dýrið hafa verið um 60-70 metra frá þeim og hluti af því hafi verið falið bak við hól. Dýrið sat og var að drekka vatn úr lækjarsprænu og varð ekki vart við mennina í fyrstu en ekki er útilokað að lætin í þeim hafi gert því viðvart.
„Við vorum svo hræddir að við misstum silunginn á hlaupunum. Það kom upp í huga okkar að losa okkur við töskurnar og veiðibúnaðinn því við vorum svo þungir á okkur. Vindurinn blés frá suðri til norðurs sem var gott fyrir okkur því við vorum á leið í norðurátt,“ segir David og bætir því við að í staðinn hafi þeir farið niður á höfn og veitt þorsk.
„Við héldum áfram að reyna að líta til baka en af því að vinur minn var svo sannfærður um að þetta væri hvítabjörn datt okkur ekki í hug að fara til baka til að kanna það frekar eða taka myndir. Þetta var bara kapphlaup að bílnum,“ segir David hlæjandi og bætir því við að þeir hafi hlaupið fjóra kílómetra að bílnum á um það bil tuttugu mínútum.
Hann segir mikið um hóla og hæðir á svæðinu og því erfitt að sjá lengra frá sér en 60-70 metra og því hafi meintur hvítabjörn getað birst nánast upp úr þurru ef hann hafi verið að elta þá.
Í framhaldinu kom ekki annað til greina hjá David en að tilkynna atvikið enda hafi vinur hans verið handviss að um hvítabjörn hafi verið að ræða og þeir í raun skyldugir til að láta yfirvöld vita.
David segir vin sinn smeykan við að fara aftur á svæðið til að halda veiðum áfram.
„Annaðhvort förum við til baka og horfumst í augu við óttann eða förum aftur suður,“ segir hann að lokum.