Ekki hefur sést til bjarndýrs

Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður á vettvangi á Melrakkasléttu fyrr í …
Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður á vettvangi á Melrakkasléttu fyrr í kvöld, með sjónauka á lofti í leit að bjarndýri. mbl.is/Sigurður Bogi

Þyrlu Landhelgisgæslunnar var snúið til Akureyrar um klukkan hálfeitt í nótt en ekkert hafði þá sést til bjarndýrs á Melrakkasléttu, sem franskir veiðimenn tilkynntu um í gærkvöldi. Farið verður yfir stöðuna í fyrramálið og hún endurmetin.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur sett inn eftirfarandi færslu á Facebook-síðu sína:

„Þegar tilkynningin barst lögreglu var leitað til Landhelgisgæslunnar með það að fá þyrlu til að fljúga yfir svæðið og fóru menn frá Akureyri með í það flug. Þá voru lögreglumenn sendir til að vera á svæðinu til aðstoðar ef á þyrfti að halda. Tilkynning var send með SMS á alla þá aðila sem voru með farsíma á svæðinu um atvikið og fólk beðið að láta vita ef það yrði vart við dýrið. Þá setti lögreglan sig í samband við fulltrúa Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar vegna þessa.

Klukkan 00:30 sneri þyrlan aftur til baka til Akureyrar, en ekkert hafði þá sést til dýrsins. Í fyrramálið verður farið yfir stöðuna og hún endurmetin.

Viljum við árétta við fólk á svæðinu að ef að það verður vart við dýrið þá skal hafa samband við 112.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert