Kílómetrafjöldinn passar við nýtt mat

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð málsins.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óútskýrður akstur Thomasar Møller Olsen að morgni 14. janúar frá klukkan sjö til ellefu er 190 kílómetrar, en ekki að lágmarki 140 kílómetrar eins og hafði komið fram við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um akstur rauðu KIA Rio-bifreiðarinnar sem Thomas var með á leigu á þeim tíma sem Birna Brjánsdóttir hvarf.

Skoðun lögreglunnar var gerð að beiðni ríkissaksóknara í tengslum við meðferð matsmáls fyrir héraðsdómi, en mál Thomasar verður tekið fyrir í Landsrétti í haust.

Í Fréttablaðinu á föstudaginn var greint frá því að haffræðingur hafi skilað matsskýrslu til héraðsdóms þar sem fram kom að líklegast væri að líkami Birnu hafi verið settur í Ölfusá við Óseyrarbrú þegar tekið er mið af hafstraumum, veðurfari, landslagi o.fl. Vegalengd fram og til baka frá Hafnarfjarðarhöfn að brúnni eru 150 kílómetrar og því gæti niðurstaða sérfræðingsins haft mikið að segja í áfrýjunarmálinu fyrir Landsrétti.

Frá leitinni að Birnu við Selvog.
Frá leitinni að Birnu við Selvog.

Ríkissaksóknari, sem fer nú með málið, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is, að heildarakstur bifreiðarinnar á leigutíma Thomasar, frá 13. til 14. janúar, hafi verið 319 kílómetrar. Þar af hafi um 190 kílómetrar verið óútskýrðir, sem er þá sú vegalengd sem lögreglan horfir til að Thomas gæti hafa keyrt með Birnu frá Hafnarfjarðarhöfn.

Er vísað beint í úrskurð héraðsdóms í matsmálinu: „Af því leiði að bifreiðinni hafi verið ekið 189,2 km á tímabilinu frá klukkan sjö til ellefu, sem séu heldur fleiri kílómetrar en D lögreglumaður hafi áætlað í skýrslu sinni fyrir dómi. Í dómi héraðsdóms sé tekið fram að miðað við skýringar sóknaraðila á þeim akstursleiðum sem hann hafi ekið sé að lágmarki óútskýrður [sic] 140 km.“

Af þessu má skilja að óútskýrðir kílómetrar í ferðum Thomasar eru talsvert fleiri en frá Hafnarfjarðarhöfn beina leið að Óseyrarbrú og ljóst að hann hafi getað ekið bæði þangað eða að Vogaósum, þar sem talið var hann hafi komið líkama Birnu fyrir við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert