Löxum í Hítará gæti fækkað um 20%

„Þetta hefur ekki áhrif á þann fisk sem er að …
„Þetta hefur ekki áhrif á þann fisk sem er að koma í ána núna og ekki á næsta ári því seiðin eru farin út.“ Ljósmynd/svfr.is

„Við fórum í það í gær að meta áhrifin á búsvæðin. Þetta er stórt vatnasvæði, áin sjálf, Hítará, er um 32 kílómetrar og hliðarárnar margar og misstórar, alls um 40 kílómetrar. Þetta er heilmikið flatarmál af vatnasvæði sem fiskurinn getur gengið um,“ segir Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, um áhrif skriðunnar úr Fagraskógarfjalli á laxastofninn í Hítará.

„Röskunin hefur áhrif á um 10 kílómetra svæði, frá ármótum Hítarár og Tálma og upp fyrir stífluna, lónið sem þar myndast,“ segir Sigurður og að þetta 10 kílómetra langa svæði sé að mestu þurrt. „Við erum að meta það að heildarframleiðslugeta vatnasvæðisins minnki um 20%.“

Sigurður segir þessi áhrif ekki muna koma í ljós fyrr en eftir um tvö ár. „Þetta hefur ekki áhrif á þann fisk sem er að koma í ána núna og ekki á næsta ári því seiðin eru farin út.“

Mörgum spurningum er þó enn ósvarað að mati Sigurðar, til að mynda hvort nýi farvegur árinnar geti vegið upp á móti fyrirætluðum röskunum á framleiðslugetu. „Það er líka spurning hvort það sé fiskgengt þarna upp fyrir stífluna. Það geta verið einhverjir staflar og fossar í þessu sem hefta för fiska.“

Þurfa að bregðast við í samráði

Þrátt fyrir að eiginleg áhrif á stofninn komi ekki fram strax er ljóst að skriðan mun hafa talsverð áhrif á laxveiðina strax í sumar að sögn Sigurðar. „Það eru fullt af veiðistöðum dottnir út og svo eru aðstæður til veiða mun verri. Það er einhver skollitun í vatni, alls konar mosi og slíkt sem væntanlega mun valda erfiðleikum í veiðinni.“

„Veiðifélagið og leigutakar þurfa að taka á því hvernig verður brugðist við í samráði. Verkefnið núna er að finna mótvægisaðgerðir og finna út hvernig hægt er að lagfæra ástandið. Ég á eftir að hitta hagsmunaaðila og fara betur yfir það með þeim. Það er ýmislegt sem kemur til greina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert