Umboðsmaður Alþingis segir að miðað við upplýsingar um biðtíma utangarðsfólks eftir því að fá úthlutað varanlegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg verði ekki annað ráðið en að til staðar sé almennur og viðvarandi vandi í tengslum við húsnæðismál þessa hóps og þeirra sem glíma við fjölþættan vanda.
Ekki sé unnt að líta svo á að almennur málsmeðferðartími í málaflokknum sé í samræmi við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málshraðareglum stjórnsýsluréttarins. Þegar þessi atriði og umgjörð við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg séu virt heildstætt skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga.
Umboðsmaður komst einnig að þeirri niðurstöðu að reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur fullnægi ekki kröfum sem gera verður til skýrleika reglna um skilyrði sem í reynd eru sett fyrir úthlutun húsnæðis.
Tildrög athugunarinnar voru m.a. kvartanir og ábendingar sem umboðsmanni hafa borist þar sem gerðar eru athugasemdir við hvernig sveitarfélögin rækja það verkefni að sjá til þess að veita þeim sem ekki eru færir um það sjálfir úrlausn í húsnæðismálum og meðferð slíkra mála. Við athugun á fjölda utangarðsfólks í Reykjavík árið 2017 kom fram að fjölgað hafði í þeim hópi um 95% frá árinu 2012.
Þau mál sem borist hafa umboðsmanni vegna húsnæðismála þess hóps sem fjallað er um í álitinu hafa t.d. varðað langan biðtíma eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, þau skilyrði sem í reynd eru sett gagnvart þeim sem glíma við fíknivanda til að fá úthlutað slíku húsnæði og ófullnægjandi framboð af sértækum húsnæðisúrræðum til að mæta þörfum þessa hóps.
Þá hafa einstaklingar í þessari stöðu í sumum tilvikum ekki átt kost á að nýta þau meðferðarúrræði sem heilbrigðiskerfið telur henta þar sem þeir hafa ekki tryggt búsetuúrræði eða ekki hefur verið hægt að útskrifa þá af þeirri stofnun sem þeir dvelja á af sömu ástæðu.
„Árið 2014 leitaði til mín heimilislaus maður og kvartaði yfir þeirri málsmeðferð sem umsókn hans um félagslegt húsnæði hjá Reykjavíkurborg hafði fengið. Af gögnum málsins og skýringum Reykjavíkurborgar í tengslum við athugun mína á málinu fékk ég ráðið að umsókn hans um félagslega leiguíbúð hefði verið samþykkt og hann væri á biðlista eftir slíku úrræði.
Hins vegar kæmi hann ekki til greina við úthlutun til fólks á biðlistanum þar sem hann væri í mikilli og virkri neyslu áfengis og/eða vímuefna. Einstaklingar í þeirri stöðu ættu kost á öðrum úrræðum, þ.e. svokölluðu sértæku húsnæðisúrræði, en hann hefði ekki viljað sækja um það.
Af þessari ástæðu hafði viðkomandi verið á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði í hartnær fimm ár án þess að tekin hefði verið endanleg ákvörðun um úthlutun á tiltekinni íbúð til hans eða að fyrir lægi að slík ákvörðun yrði tekin í bráð. Allan þann tíma hafði hann ýmist dvalið á götunni eða í neyðarúrræðum borgarinnar fyrir heimilislausa, s.s. Gistiskýlinu,“ segir í athugun umboðsmanns Alþingis.
Umboðsmaður ákvað af þessu tilefni að taka tiltekin atriði tengd húsnæðismálum utangarðsfólks til athugunar að eigin frumkvæði.
Tilefni álitsins var að fjalla um þær lagalegu skyldur sem Alþingi hefur ákveðið að leggja á sveitarfélögin um lausn á húsnæðisvanda umræddra einstaklinga. Þar sem það hefur öðru fremur komið í hlut Reykjavíkurborgar að takast á við aðstæður þeirra var sjónum sérstaklega beint að því hvernig borgin hefur staðið að þessum málum en þær lagareglur og sjónarmið sem lýst er í álitinu eiga eðli málsins samkvæmt einnig við í tilvikum annarra sveitarfélaga.
„Í álitinu benti umboðsmaður á að Alþingi hefur falið sveitarfélögum, sem lið í félagsþjónustu þeirra, að aðstoða íbúa sína við lausn á húsnæðisvanda þeirra. Regla 46. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, sé skýr um skyldu þeirra til að veita úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda meðan unnið er að varanlegri lausn.
Þótt ekki komi fram í lögunum hvernig aðstoðinni skuli háttað þurfi sveitarfélögin við framkvæmd þessara lagareglna að haga túlkun sinni, reglum og ákvörðunum í samræmi við þær lágmarkskröfur sem leiða af stjórnarskrá og fjölþjóðlegum mannréttindareglum, sem og reglur stjórnsýsluréttarins. Umboðsmaður tók sérstaklega fram að sjálfstjórn sveitarfélaga haggi ekki þessum lágmarkskröfum en þegar þeim sleppi hafa sveitarfélögin ákveðið val um leiðir til úrlausnar og um ráðstöfun fjármuna og sé vissulega heimilt að gera betur í þágu íbúa sinna,“ segir í áliti umboðsmanns Alþingis.
Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til þeirra stjórnvalda sem bera ábyrgð á og fjalla um þessi mál að gerðar verði, eins fljótt og unnt er, fullnægjandi ráðstafanir til þess að bæta úr þeim annmörkum sem verið hafa á málsmeðferðartíma og framboði húsnæðisúrræða vegna utangarðsfólks og þar með líka hóps þeirra sem glíma við fjölþættan vanda, m.a. með gerð áætlana um aðgerðir til að mæta og leysa úr þessum vanda.
Umboðsmaður tók fram að þar sem lögin kveða ekki á um hvernig sveitarfélögin skuli haga úrlausn þessara mála að öðru leyti en að leysa úr bráðum vanda meðan unnið er að varanlegri lausn teldi hann ekki rétt að ganga lengra að sinni í tilmælum sínum til stjórnvalda en að þau, hvert á sínu sviði þessara mála, geri og leggi fram eins fljótt og því verður komið við áætlanir um aðgerðir til að mæta þessum vanda.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum sérstaklega til Reykjavíkurborgar að þegar verði leitað leiða til að haga afgreiðslutíma og upplýsingagjöf um fyrirsjáanlegar tafir á því að þeir sem hafa fengið samþykkta umsókn um húsnæði hjá borginni fái því úthlutað í samræmi við þær reglur sem koma fram í 9. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur minnti hann á að í hverju tilviki verður að fara fram einstaklingsbundið mat og rannsókn á aðstæðum viðkomandi umsækjanda um húsnæðisúrræði auk þess sem gætt verði að leiðbeiningarskyldu og skyldu til að skrá upplýsingar um málsatvik og meðferð mála. Umboðsmaður mæltist einnig til þess að Reykjavíkurborg lyki sem fyrst við yfirstandandi endurskoðun gildandi reglna um félagslegt leiguhúsnæði þannig að þær endurspegluðu í reynd öll þau atriði sem hefðu þýðingu við úthlutun almenns félagslegs húsnæðis, auk fyrirhugaðrar setningar reglna um sértæk húsnæðisúrræði.
Umboðsmaður birti með álitinu niðurstöður athugunar sem gerð var hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögunum utan Reykjavíkur með tilliti til húsnæðismála utangarðsfólks.
Þótt athugunin bæri með sér að almennt hefði lítið reynt á þessar aðstæður hjá flestum sveitarfélaganna taldi umboðsmaður þó ástæðu til að beina þeim tilmælum til þeirra að þau færu yfir þessi mál með tilliti til þess sem fram kæmi í álitinu og huguðu að því, og þá eftir atvikum að höfðu samráði við Reykjavíkurborg vegna einstaklinga sem þangað leita frá öðrum sveitarfélögum, hvernig þau rækja þær skyldur sem lög leggja á þau að þessu leyti, segir á vef umboðsmanns Alþingis.
„Með vísan til þess að félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir undir félags- og jafnréttismálaráðherra beindi umboðsmaður þeim tilmælum til hans að tekin yrði afstaða til þess hvort tilefni væri til að ráðuneytið, í krafti eftirlitsheimilda sinna, skoðaði nánar stöðu og framkvæmd þessara mála hjá einstökum sveitarfélögum.
Umboðsmaður tók fram að með tilliti til þess að Alþingi hefði með lögum falið sveitarfélögunum að annast umrætt verkefni kynni að reyna á að hvaða marki ráðuneytið teldi eftirlitsheimildir sínar duga til afskipta af þessum málum hjá sveitarfélögunum og þá hvort tilefni væri til þess að skerpa á ákvæðum laga um þetta verkefni sveitarfélaga þannig að skyldur þeirra væru útfærðar nánar og þar með verði réttur íbúanna að þessu leyti skýrari.
Umboðsmaður ákvað jafnframt að vekja athygli heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra á stöðu þeirra mála sem fjallað er um í álitinu og þá með tilliti til þess hvernig þessi mál tengjast vanda einstaklinga sem dvelja eða hafa dvalið eða verið vistaðir á stofnunum sem ríkið starfrækir, s.s. geðsjúkrahúsum og fangelsum. Umboðsmaður tók fram að hann teldi mikilvægt að þeir aðilar sem koma að málefnum þeirra hópa sem fjallað er um í álitinu, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga, hafi með sér samráð um hvernig takast megi á við húsnæðisvanda þeirra þannig að efnisleg lágmarksréttindi séu tryggð og að um sé að ræða raunhæf og virk úrræði í þágu þeirra,“ segir í frétt á vef umboðsmanns Alþingis.