Bjóða ríkinu að kaupa jörð

Hjörleifshöfði á sandinum. Hafursey og Kötlujökull í baksýn.
Hjörleifshöfði á sandinum. Hafursey og Kötlujökull í baksýn. Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson

„Við byrjuðum fyrir 11 árum að bjóða ríkinu þetta land til sölu. Það hefur ekki orðið af því. Með umræðunni um jarðakaup útlendinga að undanförnu tel ég hins vegar að það sé að verða viðhorfsbreyting í þessum málum,“ segir Þórir N. Kjartansson, landeigandi í Hjörleifshöfða.

Þórir á jörðina ásamt systrum sínum, Áslaugu og Höllu. Jörðin hefur verið í eigu fjölskyldunnar allt frá 1840 þegar langafi þeirra, Loftur Guðmundsson, keypti jörðina. Sonur hans, Markús, skrifaði bók um jarðelda árið 1880. Hann varð vitni að eldgosi í Kötlu árið 1860. Sonur hans, Kjartan Leifur, bjó í Höfðanum árið 1918 þegar Katla gaus síðast. Kjartan Leifur og móðir hans, Áslaug Skæringsdóttir, fluttu af jörðinni 1920 ásamt stjúpföður Kjartans, Hallgrími Bjarnasyni. En búskapur lagðist endanlega af í Hjörleifshöfða 1936.

Þórir N. Kjartansson.
Þórir N. Kjartansson.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Þórir segir aðspurður að þau systkinin eigi marga afkomendur. Enginn þeirra hafi hins vegar áhuga á að hefja búskap á jörðinni á ný.

„Hjörleifshöfðinn var að vissu leyti hlunnindajörð. Það var fyrir fýlatekjuna og miklar rekafjörur, sem voru náttúrulega verðmæti í gamla daga, en hún var alltaf erfið til búskapar. Tækifærin eru nú fyrst og fremst í kringum ferðamennsku. Til dæmis eru mörg fyrirtæki farin að bóka hópferðir að Kötlujökli við norðurmörk Hjörleifshöfðajarðarinnar, auk þess sem sívaxandi ferðamannastraumur er í Hjörleifshöfðann sjálfan.“

Löggjafinn eyði óvissu

Spurður hvort eigandi jarðarinnar muni geta selt aðgang að landinu segir hann það „svolítið óskýrt“. Hér vakni spurningar um hvort fyrirtæki geti nýtt sér annarra manna land til að afla sér tekna án þess að greiða landeigendum fyrir það. Þá með því að vísa til almenns umgengnisréttar um náttúruna. „Það eru mörg grá svæði í þessu efni. Löggjafinn þyrfti í ljósi mikils straums ferðamanna að skýra þetta svolítið betur,“ segir Þórir sem telur tækifæri felast í hótelrekstri í Hafurseynni eða í Hjörleifshöfðanum. Það sé einstakt að geta gist við Kötlu og skroppið upp á jökul.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert