„Frábær samningur fyrir borgina“

Teiknuð mynd af nýju strætóskýlunum sem verða sett upp um …
Teiknuð mynd af nýju strætóskýlunum sem verða sett upp um alla borg eftir áramót. Teikning/Billboard

Fyr­ir­tækið AFA JCDecaux hefur um tuttugu ára skeið rekið strætó­skýl­in í Reykja­vík. En nú verður breyting á. Samningur fyrirtækisins við borgina rann út í mánuðinum og fyrirtækið ákvað að taka ekki þátt í útboði borgarinnar til næstu fimmtán ára.

Einar Hermannsson framkvæmdastjóri segir að nokkur atriði hafi spilað inn í. Helsta fyrirstaðan var fjöldi skýlanna, en með samningnum er gert ráð fyrir að strætóskýlum fjölgi úr 147 í 210, þar sem biðstöðvar í Árbæ, Grafar­vogi og Breiðholti fá skýli. Þá var í útboðsgögnum krafist að rauntímatöflum yrði komið upp í 50 skýlum.

Við keflinu tekur nýtt fyrirtæki, Billboard ehf., og munu skýli þess koma í stað þeirra gömlu. Fyrirtækið mun sjá um upp­setn­ingu og viðhald strætó­skýla og upp­lýs­inga­skilta í borg­inni, borg­ar­yf­ir­völd­um að kostnaðarlausu. Þess í stað sel­ur fyr­ir­tækið aug­lýs­ing­ar í skýl­in og hef­ur af því tekj­ur.

„Þetta er frábær samningur fyrir borgina,“ segir Einar. Borgin fái 210 glæný skýli fyrir 15 ára samning og rauntímakortin, sem eru dýr í uppsetningu. „Þau eru að fá rosalega mikið fyrir ekki neitt,“ segir hann og segir fyrirtæki sitt ekki hafa verið tilbúið í að gera slíkan samning við borgina. 

Eins og komið hefur fram í umfjöllun mbl.is verða nýju skýlin með stórum LED-skjám á auglýsingahliðinni. Því verður ekkert mál að skipta út auglýsingum á skiltunum.

Þó að samningur AFA við borgina hafi runnið út 1. júlí hafa samningar náðst við borgina um að skýlunum verði haldið uppi fram yfir áramót eða þar til nýju skýli Billboard ehf. verða sett upp.

En hvað mun AFA þá gera við skýlin sín?

„Það verður eiginlega að koma í ljós," segir Einar. Hann segir stefnt að því að koma skýlunum í verð, til dæmis erlendis. Það er þó vandkvæðum bundið því skýlin eru jafnan ólík milli borga. Sams konar skýli eru í notkun í Danmörku, en þau eru blá.

Þessi skýli eru á útleið.
Þessi skýli eru á útleið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert