Ljósmæður standa fast við sínar kröfur

Frá fundi samninganefndanna í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.
Frá fundi samninganefndanna í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert

Samninganefnd ljósmæðra hafnaði tillögu samninganefndar ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Fundinum lauk rétt fyrir klukkan 16 án nokkurrar niðurstöðu. Gunnar Björnsson formaður samninganefndar ríkisins staðfestir í samtali við mbl.is að ljósmæður hafi hvergi hvikað frá þeim kröfum sem lagðar voru fram á síðasta fundi.

„Já, því miður. Það voru bara veruleg vonbrigði, ég get ekki sagt annað,“ segir Gunnar, sem sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag nokkuð bjartsýnn fyrir fundinn. Hann telur að samninganefndin hafi seilst eins langt og hún gat með því tilboði sem lagt var fram í dag.

„Annars vegar vorum við að reyna að bregðast við þessum kröfum þeirra um að vinnuálag þeirra sem vinna vaktavinnu væri of mikið og óhóflegt. Við skuldbundum okkur til að vinna að því fyrir þennan fund og lögðum fram tillögur þar að lútandi og því var hafnað. Svo lögðum við líka fram tillögu sem við höfðum áður lagt fram varðandi hvaða launabreytingar við gætum boðið upp á og því var líka hafnað. Tillögunni í heild sinni var hafnað af þeirra hálfu og þær bara ítrekuðu sitt fyrra tilboð,“ segir Gunnar.

En hvað tekur nú við í þessari deilu?

„Nú er orðið fátt um fína drætti. Maður bara vonar að fólk láti skynsemina ráða. Við erum að bjóða 9 mánaða samning og þær eru líka að leggja til 9 mánaða samning, en þær hækkanir sem þær leggja til í því samhengi eru langt umfram það sem hægt er horfa á,“ segir Gunnar, en hann segir að ljósmæður séu að fara fram á 18% hækkun á 9 mánaða samningstímabili.

„Það er eiginlega bara töluvert frá því sem við getum orðið við,“ segir Gunnar.

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar á milli samningsaðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert