Sveitarstjórnarráðherra segir að Íslendingar eigi að horfa til þess hvernig Danir og Norðmenn hagi sínum jarðarmálum. Hann segir eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar að setja skilyrði við kaup á landi sem taki mið af jákvæðri þróun byggða um land allt.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skrifar í Facebook-færslu um jarðakaup útlendinga hér á landi sem verið hafa mikið í fréttum að undanförnu. Hann segir að mikilvægt sé að landi sem henti vel til ræktunar verði ekki ráðstafað til annarra nota.
Tæplega 2400 jarðir, um 30%, eru í eigu fyrirtækja,“ bendir hann á. „Eignarhaldið og markmiðið er oft óljóst. Ef jarðir eru í eigu erlendra fyrirtækja er nær ómögulegt að rekja hverjir hinir raunverulegu eigendur eru.“
Sigurður Ingi segir að hægt sé að færa góð og gild rök fyrir því að land utan skipulagðs þéttbýlis skuli vera í eigu þeirra sem hafi fasta búsetu, hafi af því atvinnu og taki þátt í samfélaginu. Þau rök gildi jafnt um Íslendinga sem útlendinga.
Hann bendir á að dómaframkvæmd Evrópudómstólsins telji m.a. að sjónarmið um rekstur tiltekinna bújarða og stefnu stjórnvalda að búið skuli á tilteknum svæðum allan ársins hring teljist lögmæt.
„Við eigum að horfa til þess hvernig Danir og Norðmenn haga sínum jarðarmálum,“ skrifar Sigurður Ingi. „Eitt af forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar er að setja skilyrði við kaup á landi sem taki mið af jákvæðri þróun byggða um land allt. Land er takmörkuð auðlind og undirstaða verðmætasköpunar og velferðar í landinu.“