Finnbjörn Þorvaldsson, margfaldur Íslandsmeistari í frjálsíþróttum og fyrrverandi fjármálastjóri Loftleiða, lést á mánudaginn, 94 ára að aldri.
Finnbjörn fæddist í Hnífsdal 25. maí 1924. Foreldrar hans voru Halldóra Finnbjörnsdóttir húsfrú og Þorvaldur Magnússon sjómaður.
Finnbjörn flutti ungur til Ísafjarðar og svo með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Hann gekk í Samvinnuskólann og að loknu námi þar hóf Finnbjörn að vinna fyrir Ísafoldarprentsmiðju. Á sjötta áratugnum varð hann starfsmaður Loftleiða, sá um bókhald, varð síðar skrifstofustjóri og loks fjármálastjóri. Það starf hafði Finnbjörn með höndum þar til Loftleiðir sameinuðust Flugfélagi Íslands að hann hóf hóf störf á skrifstofu hótels Esju, sem Flugleiðir áttu.
Eftirlifandi eiginkona Finnbjörns er Theodóra Steffensen, fædd 17. septebmer 1928. Þau giftust 1947. Hún er dóttir Sigríðar Árnadóttur húsfrúar og Björns Steffensen endurskoðanda.
Finnbjörn og Theodóra eignuðust sjö börn: Björn, fæddur 1947, er kvæntur Sigríði Aradóttur, Finnbjörn, fæddur 1950, er kvæntur Kathia Rovelli, Þorvaldur, fæddur 1952, er kvæntur Önnu Árnadóttur, Sigríður, fædd 1954, er gift Halldóri Hilmarssyni, Gunnar Þór, fæddur 1958, er kvæntur Eyrúnu Magnúsdóttur, Halldóra Svala er fædd 1962 og Úlfar, sem fæddur er 1964 og kvæntur Sigrúnu Hafsteinsdóttur.
Á árunum 1945 til 1952 var Finnbjörn einn besti frjálsíþróttamaður á Norðurlöndum. Hann setti tugi Íslandsmeta í spretthlaupum og langstökki. Finnbjörn tók þátt í Norðurlandamótum þar sem hann vann sigra og Evrópumótum þar sem hann komst í úrslit. Hann keppti á Ólympíuleikunum í London 1948, þar sem hann var fánaberi Íslands.
Hann varð einnig Íslandsmeistari í handbolta með félagi sínu, ÍR. Þá spilaði Finnbjörn badminton með góðum árangri í áratugi hjá TBR. Golf stundaði hann einnig lengi, allt til 92 ára aldurs. Finnbjörn var einn stofnenda golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði og félagi í honum alla tíð.