„Þegar eftir þessu [framboði Íslands] var leitað var það alveg ljóst af minni hálfu að mér fannst ekki í boði að skorast undan þessari ábyrgð þrátt fyrir að þetta gæti orðið krefjandi verkefni,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við blaðamann mbl.is. Talsverðar líkur eru á því að Ísland taki sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á morgun þar sem Ísland er eitt í framboði.
Kosið verður á morgun um eitt sæti í mannréttindaráðinu í óvenjulegri kosningu, en lok kjörtímabilsins er 31. desember 2019. Kosningin er óvenjuleg að því leiti að hún er haldin vegna úrsagnar Bandaríkjanna úr ráðinu sem hefur aðsetur í Genf í Sviss.
Katrín segist bjartsýn þegar spurt er um möguleika Íslands til þess að ná kjöri. „Þetta var ámálga við okkur sem leiddi til þess að við gáfum kost á okkur og ég er vongóð um að það myndist samstaða um framboð Íslands í þessum hópi þannig að við fáum þetta sæti á morgun.“
Í ráðinu sitja fulltrúar 47 ríkja og mun Ísland þurfa 97 atkvæði af 193 á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.
Leitað var til Íslands vegna stefnu landsins í mannréttindamálum að sögn Katrínar. „Ég tel nú ástæðu þess að þetta er ámálgað við okkur […] er okkar málflutningur hingað til, þar sem við höfum verið halda á lofti mannréttindum. Ásamt því að ræða kynjajafnrétti, málefni hinsegin fólks og tekið upp mál ýmissa svæða.“
Hún telur samstöðu um framboð Íslands vera mikilvæga viðurkenningu fyrir málflutning Íslands á alþjóðavettvangi, en tekur jafnframt fram að hún telur kjör Íslands einnig mikilvægt fyrir umræðuna um mannréttindamál heima fyrir. „Þetta getur dýpkað slíka umræðu og tekið hana á nýtt stig í íslenskum stjórnmálum.“
Í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna eru ýmsar þjóðir sem eru ekki endilega sammála málflutningi Íslands hvað mannréttindi varðar. Blaðamaður spyr hvernig hún búist við að samstarf við þjóðir sem íslensk yfirvöld hafa gagnrýnt muni ganga. „Þetta er auðvitað ábyrgðarhluti að taka þetta á hendur, þar af leiðandi er þetta krefjandi,“ svarar Katrín.
„Þetta mun auðvitað reyna á okkur, en um leið tel ég mikilvægt fyrir okkur. Við erum lítil þjóð og höfum haft skýra stefnu í þessum málum og það mun reyna á okkur að þurfa einmitt að leggja okkar af mörkum í þessu samhengi,“ bætir hún við.